Sex manns létust og einn slasaðist á laugardagsmorgun þegar eldur kviknaði í geymslu fyrir ilmvatn í Kocaeli-héraði í norðvesturhluta Tyrklands. Eldsvoðinn varð í iðnbænum Dilovasi, sem er í um 70 kílómetra fjarlægð frá Istanbúl. Björgunarteymi og slökkvilið voru strax send á vettvang og réðu niðurlögum eldsins innan klukkustundar. Sjónarvottur greindi fréttamiðlinum Sabah frá því að sprenging hefði orðið áður en eldurinn kviknaði. Sveitarstjóri Kocaeli, İlhami Aktaş, staðfesti við fjölmiðla að sá sem slasaðist hefði verið fluttur á sjúkrahús. Hann er sagður lífshættulega slasaður vegna brunasára. Aktas sagði eldsupptökin enn ókunn. Tahir Büyükakın, borgarstjóri Kocaeli-stórborgarsvæðisins, sagði tvær táningsstúlkur, 16 og 17 ára, vera meðal hinna látnu. Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseti vottaði ættingjum hinna látnu samúð sína og sagði tyrkneska atvinnumálaráðuneytið hafa hleypt rannsókn af stokkunum. Yılmaz Tunç dómsmálaráðherra sagði þrjá hafa verið handtekna vegna málsins.