Drama á öllum hæðum í Downton Abbey

Þau sitja átta, afar prúðbúin, og snæða saman við dekkað borð. Álíka margt þjónustufólk snýst í kringum gestina, ber á borð kræsilega rétti sem fólkið borðar með réttum hnífapörum eftir kúnstarinnar reglum. Það er svolítil spenna í loftinu þótt allir haldi fast í háttprýði og kurteisi. Það er verið að ræða framtíð fjölskyldunnar við fjarskyldan frænda, Matthew Crawley, sem með þeim situr. Sá fjarskyldi er orðinn fyrstur í erfðaröðinni því hjónin Robert og Cora Crawley eiga bara þrjár dætur. Fjölskyldan er forviða yfir áformum hins unga Matthews sem fljótlega ætlar að byrja í nýrri vinnu. Hvernig sér hann eiginlega fyrir sér að geta hugað að eignum og verkefnum fjölskyldunnar samhliða því? Hann segist hafa nógu marga tíma í sólarhringnum og svo geti hann jú unnið um helgar. Höfuð ættarinnar, hin virðulega lafði Violet Crawley, sem Maggie Smith leikur, spyr steinhissa. Hvað er helgi? Hin bráðgáfaða aðalskona þekkir lítið til tímatals vinnandi stétta. Svanasöngur Downton Abbey í bíó fylgir eftir feykivinsælum sjónvarpsþáttum um íbúa á öllum hæðum sveitasetursins Downton Abbey. Þættirnir hafa fengið fjölda verðlauna og slegið áhorfsmet þótt áhorf hafi farið hægt af stað hér á landi. Þetta er eitt af þekktari atriðunum í fyrstu þáttaröð Downton Abbey. Sjónvarpsþáttum sem á endanum urðu 52 í sex þáttaröðum. Og að lokum þrjár bíómyndir að auki. Að lokum segi ég því þriðja bíómyndin, sem nú er verið að sýna í kvikmyndahúsum, verður lokakaflinn um góðkunningjana alla í Downton Abbey. Skráðir í Heimsmetabók Guinnes árið 2011 Til glöggvunar þeim lesendum sem ekki hafa séð þættina skal hér upplýst að Downton Abbey gerist á samnefndu óðali og í nærsveitum. Á efri hæðinni fylgjumst við með lífi Crowley-fjölskyldunnar, hjónunum Robert og Coru, dætrum þeirra þremur og ættmóðurinni, Violet. Á neðri hæðinni býr og starfar þjónustufólk fjölskyldunnar, öll hafa þau sinn einkaþjón, og svo eru það eldabuskurnar, bílstjórinn og að sjálfsögðu æðsti brytinn, herra Carson. Svanasöngur Downton Abbey í bíó fylgir eftir feykivinsælum sjónvarpsþáttum um íbúa á öllum hæðum sveitasetursins Downton Abbey. Þættirnir hafa fengið fjölda verðlauna og slegið áhorfsmet þótt áhorf hafi farið hægt af stað hér á landi. „Ég sá þættina fljótlega eftir að þeir komu fyrst út og hreifst strax af þeim. Leikmyndin, búningarnir og persónurnar, þessi fyrsta þáttaröð var svo mögnuð,“ segir Sophie Stewart. Hún er varasendiherra Bretlands hér á landi. Hún er sagnfræðingur og eldheitur aðdáandi Downton Abbey. Og Sophie er ekki eini aðdáandi þáttanna. Þeir voru skráðir í Heimsmetabók Guinness árið 2011 sem mest mærða sjónvarpsþáttaröðin það árið. „Þetta hefur ferðast til um hundrað landa sem er auðvitað alveg með ólíkindum,“ segir Erna Ósk Kettler, innkaupastjóri erlends efnis á RÚV. Þó að breskur aðall og þjónustufólk séu þungamiðja þáttanna eru þeir framleiddir af bandarískum kvikmyndarisa. Universal hvorki meira né minna. Erna Kettler rifjar upp hvenær hún frétti fyrst af þáttaröðinni. „Þetta var í október 2010. Þá erum við á sjónvarpsmessu í Frakklandi og Universal eru þar að kynna nýtt evrópskt drama sem var eitthvað alveg nýtt því Universal er þekkt bara fyrir bandarískt efni. Og það var ekki einu sinni heill þáttur kynntur, heldur bara stikla. Og við sögðum strax, kaupum þetta.“ „Það sem líka tikkaði í boxin var leikaravalið. Maggie Smith og Hugh Bonneville. Það þótti líka merkilegt að bandarískur kvikmynda- og sjónvarpsrisi væri að velja breska leikara í sjónvarpsseríu. Þetta var eitthvað nýtt og ferskt.“ Gengið var frá samningum og þættirnir sýndir á RÚV. „Ég tékkaði í kerfinu og það var 1. janúar 2011 sem við skrifuðum undir samninginn og þetta fór í loftið í apríl,“ segir Erna. „Þetta var nýfarið í loftið í Bretlandi og sló rækilega í gegn og fólk var að líkja þessu við Húsbændur og hjú sem var geysilega vinsælt.“ Húsbændur og hjú eða Upstairs, Downstairs voru fimm þáttaraðir um hefðarfólk og þjónustufólk þess sem áttu miklum vinsældum að fagna á áttunda áratugnum. Erna segir þetta samspil, togstreitu og heimana tvo sem þessir tveir hópar tilheyra aðdráttarafl þáttaraðanna tveggja. Undir það tekur Sophie. Sophie segir sagnfræðilega nákvæmni þáttanna heilla. Það geri búningarnir sömuleiðis sem voru klæðskerasniðnir á leikarana og ekkert allir allt of þægilegir. Þá sé sviðsmyndin heillandi. Þættirnir voru teknir í Highclere-kastala. Kastalinn, þar sem Crowley-fjölskyldan býr og kallast í þáttunum Downton, var byggður 1679. Hann er opinn áhugasömum ferðamönnum sem vilja skoða sig um. En Sophie segir margt fleira athyglisvert við þættina en yfirbragðið og útlitið. Þeire gerist á áhugaverðum tíma í sögu Breta, hvort heldur er fyrir fólkið á efri hæðinni eða þjónustufólkið á þeirri neðri. Uppi fæst spariklædd Crawley-fjölskyldan að fást við erfðamál og aðrar hefðir sem einnig taka breytingum á þessum tíma. „Niðri sjáum við hvernig samfélagsbreytingarnar hafa áhrif á þjónustufólkið, sem mætir líka alls kyns áskorunum þar sem reynir á heilindi og metnað,“ segir Sophie. Það var auka krydd fyrir sagnfræðingin þegar heimsatburðir á borð við skipbrot Titanic, fyrri heimsstyrjöldina, spænsku veikina og kvenfrelsisbaráttuna settu mark sitt á atburðarásina. Áhorfið fór hægt af stað „Við frumsýndum fyrsta þáttinn á páskadag, 24. apríl 2011. Viðtökurnar voru svona la la. En ég myndi segja það það væri út af dagskrársetningu en ekki innihaldinu,“ segir Erna. „Við vorum með Landann fyrst eftir fréttir og svo vorum við með einhverja útsendingu frá sinfóníu þar á milli og svo sýndum við Downton klukkan 21.15. Fyrsti þátturinn fékk ekki frábært áhorf. Fyrsta serían fékk í raun gott áhorf en ekki frábært. En svo breyttum við dagskrársetningunni í annarri þáttaröð og settum hana strax á eftir Landanum og þá glæddist nú aðeins áhorfið og svo bara jókst það og 2013 var svona hápunkturinn,“ segir Valgeir Vilhjálmsson, markaðsrannsóknastjóri RÚV. Hann heldur meðal annars utan um mælingar á sjónvarpsáhorfi. Áhorfið á Downton Abbey var hægt af stað hér og það sama gerðist í löndunum í kringum okkur. „Þetta fór í loftið í Noregi, Danmörku og Svíþjóð frá byrjun febrúar og fram í lok mars. Og þetta var svipað, það tók smá tíma að ná flugi. Í Bretlandi náði fyrsti þátturinn níu milljón áhorfendum svo fór þetta upp í 10 til 12 milljónir eftir það, næstu þættir og næstu þáttaraðir,“ segir Erna. „Og ég veit til dæmis að í Bandaríkjunum hjá PBS, sem er svona þeirra RÚV, almannaþjónusta í Bandaríkjunum, það voru 24 milljón áhorfendur sem Downton Abbey fékk þar, sem er það mesta sem þessi sjónvarpsstöð hefur nokkru sinni fengið,“ segir Valgeir. Bandaríski framleiðslurisinn Universal gerði þættina eins og áður sagði en þeir voru sýndir á sjónvarpsstöðinni ITV í Bretlandi. „Í spilara hjá ITV á þessum tíma, 2012-2013 var þetta alveg gríðarlega vinsælt. Þarna varð þróun í notkun á svona spilurum hjá stöðvunum þarna úti og Downton Abbey á svolítinn hlut í því,“ segir Valgeir. „Við endursýndum Downton Abbey á fimmtudagskvöldum klukkan 23. Endursýningarnar fengu meira áhorf en margar þáttaraðir fá á kjörtíma hjá okkur núna. Allt að 10% áhorf sem þýðir að allt að 27 þúsund horfðu á endursýningu fram að miðnætti á fimmtudagskvöldum.“ Hika ekki við að kála aðalpersónunum Breskt búningadrama og sagnfræðilegir þættir hafa alltaf notið vinsælda utan Bretlands en Sophie segir að fáir hefðu getað spáð fyrir um vinsældir Downton Abbey á alþjóðasviðinu. Milljónir áhorfenda og fjöldi alþjóðlegra verðlauna séu staðfesting á gæðum þáttanna. Handritið sé listavel skrifað og áhorfandanum líði eins og hann sé fluga á vegg, bæði á efri hæðinni og neðri hæðinni. „Ef ég sletti á ensku þá er það þetta production value . Þú sérð það þegar þú horfir á þættina, það er ekkert til sparað. Það eru engir plastveggir þetta er allt inni í þessari höll, eða þessu hefðarsetri. Þú sérð það mjög fljótt. Og ég myndi líka vilja nefna leikaravalið. Þau skutu mjög hátt þar og fengu það margfalt til baka,“ segir Erna. Erna og Valgeir nefna líka hugrekki í handritsgerðinni. „Þeir hikuðu ekki við að kála aðalpersónum í lok þáttaraðar. Sem er mjög óvenjulegt fyrir bandarískt framleiðslufyrirtæki, bandarískar þáttaraðir eru ekki þannig.“ Þegar hér er komið sögu er líklega ekki úr vegi að huga aðeins að einum handritshöfunda og hugmyndasmiðnum á bak við þættina vinsælu. Sá heitir Julian Fellowes, breskur handritshöfundur, leikari og framleiðandi. Hann hefur innsýn í hugarheim hinna aðalbornu því hann fæddur inn í fjölskyldu breskra landeigenda. Hann hefur jafnframt rétt til setu í bresku lávarðadeildinni. Fellowes skrifaði handritið að kvikmyndinni Gosford Park árið 2001 og fékk Óskarsverðlaun fyrir. Gosford Park var ekki alveg óskyld Downton Abbey. Ekki bara var Maggie Smith þar uppáklædd í hlutverki hefðardömu heldur gerist myndin á setri sem svipar mjög til Downton. Og samræðurnar við kvöldverðarboðið þar voru líka kunnuglegar. Svanasöngur Downton Abbey í bíó fylgir eftir feykivinsælum sjónvarpsþáttum um íbúa á öllum hæðum sveitasetursins Downton Abbey. Þættirnir hafa fengið fjölda verðlauna og slegið áhorfsmet þótt áhorf hafi farið hægt af stað hér á landi. Kveikja áhuga á breskri sögu Downton Abbey er auðvitað tilbúin saga en hún gerist á sögulegum tímum, segir Sophie. Stórviðburðir í heimssögunni eru í bakgrunni og við sjáum hvaða áhrif atburðirnir hafa á fólkið á hefðarsetrinu. Áskoranirnar eru meðal annars fjárhagslegar, hvernig eigi að viðhalda íburðarmiklum lífsstílnum á stríðstímum. Svo hafi samfélagsbreytingar áhrif á andrúmsloftið í húsinu. Crawley-hjónin eiga þrjár dætur sem líta stöðu sína og framtíð öðrum augum en foreldrarnir. „Það er þetta mannlega og svo líka þetta samspil á milli þjónustufólksins og hefðarfólksins. Það er með ólíkindum að sjá hvernig þetta var. Fólk klæddi sig ekki einu sinni sjálft því það hafði þjón til þess,“ segir Erna. Kveikja áhuga á breskri sögu og menningu Sífellt bætist í sístækkandi aðdáendahóp Downton Abbey. Þættirnir hafa einnig kveikt áhuga á breskri sögu og menningu. Þúsundir aðdáenda sem koma í Highclere-kastalann ár hver eru ein birtingarmynd þess, segir Sophie, búningapartý og fleiri viðburðir í anda Downton Abbey sýni það sömuleiðis. Víða um Bretland séu viðlíka byggingar sem þurfi að varðveita út frá sögulegu sjónarhorni. Downton Abbey hafi kveikt áhuga margra á þessum hluta sögunnar og arfleifð. Erna segir að þættirnir hafi einnig opnað bresku og evrópsku sjónvarpsefni dyr að Bandaríkjunum. Arfleifð þáttanna í bransanum sé ótvíræð. „Í rauninni er Downton Abbey mælistika á allt búningadrama sem á eftir kom. Allt sem kom á eftir er borið saman við það.“ Maggie Smith er stjarna þáttanna Handritið, búningarnir, söguþráðurinn og tökustaðirnir er meðal þess sem heillar áhorfendur um allan heim. En við eigum eftir að veita sögupersónunum athygli, án þeirra væri jú lítil saga. „Það er einhver í hverri þáttaröð sem áhorfendur geta tengt við,“ segir Sophie. Fyrir einhverja eru það systurnar þrjár, Mary, Sibyl og Edith og þeirra ólíku hlutverk og verkefni í lífinu. Fyrir aðra vegferð Toms, sem byrjaði sem bílstjóri fjölskyldunnar og endar á að giftast inn í hana, sem Sophie finnst reyndar ein ótúrverðugasta sagan í þáttunum frá sagnfræðilegu sjónarhorni. Óformleg könnun meðal viðmælenda Heimskviða á eftirlætis persónunni í þáttunum gaf nokkuð afgerandi niðurstöður. „Ég held að það sé Violet Crawley, sem Maggie Smith lék, ég held að hún sé númer eitt. Og svo líka mr. Bates sem Jim Carter lék og svo Carson. Ég held að þau þrjú sláist um að vera efst á topp þrjú,“ segir Erna. Sophie heldur líka mest upp á Violet Crawley. „Hún er með svo mikinn húmor og hlutverk hennar er svo vel skrifað í öllum þáttaröðunum,“ segir Sophie og bætir við að það sé óhugsandi að einhver önnur en Maggie Smith hefði getað leikið Violet Crawley. Breska leikkonan Maggie Smith lést í fyrrahaust, 89 ára að aldri. Það eru tíu ár síðan hún tilkynnti að sjötta þáttaröðin af Downton Abbey yrði hennar síðasta enda urðu þáttaraðirnar ekki fleiri. Þótt framleiðslu þáttanna hafi verið hætt fyrir margt löngu og bíómyndirnar þrjár verði ekki fleiri hafa þau sem eiga eftir að horfa eitthvað að hlakka til. Og þau sem hafa horft geta alltaf rifjað upp kynnin við fólkið á öllum hæðum Downton Abbey.