„Gítarinn, tölvan og ég“

Það hafa líklega allir heyrt lag sem Þormóður Eiríksson hefur komið að, án þess kannski að átta sig á því. Þessi stórtæki tónsmiður hefur unnið með þekktasta tónlistarfólki landsins og framleitt slagara í massavís. Hann hefur til að mynda unnið með Herra Hnetusmjöri, Aroni Can, Birni, Friðriki Dór, Emmsjé Gauta, Jóa Pé & Króla, GDRN, Alaska 1867, Páli Óskari og Helga Björnssyni. Guðrún Sóley Gestsdóttir spurði Þormóð út í tónlistina og lífið í Kastljósi. Hann segir veðrið síðustu vikur hafa minnt hann á heimabæinn, Ísafjörð. Þar var hann iðinn við tónlist og fór mikið á snjóbretti. „Mamma hefur alltaf sagt mér að ég hafi bara fæðst tónlistarmaður og verið heillaður af tónlist strax. Vildi alltaf gera hávaða úr húsgögnum og var alveg að gera hana brjálaða,“ segir hann. Þegar móðir hans spurði hvort hann vildi æfa eitthvað, til dæmis boltaíþróttir, var svarið einfalt: Hann vildi læra á gítar. „Þegar ég byrja að æfa mig á gítarinn byrja ég hægt og rólega að semja. Þá þarf ég eitthvað til að gera hljómana fyrir mig á meðan ég spila melódíurnar. Þá kemur tölvan inn og við mótum eitthvað samband, gítarinn, tölvan og ég.“ Innslagið í Kastljósi er hér fyrir neðan. Tónlistarsköpun ísfirðingsins Þormóðs Eiríkssonar byggist á sambandinu milli hans, gítarsins og tölvunnar. Þormóður hefur unnið með þekktasta tónlistarfólki landsins og flestir ættu að kannast við lag úr smiðju hans. Tölvan er stúdíóið hans Þormóður er menntaður í tónlist á sviði tónfræði, hlustun og greiningu og lærði líka á rytmískan gítar. Hann notar alls konar verkfæri til að móta tíðnir til, eins og hann orðar það, þegar hann vinnur fullmótað lag úr upptökum. „Þegar ég segi verkfæri þá meina ég að það eru forrit inni í tölvunni, það er míkrafónn, það er hljóðkort, það eru gítarar, það er röddin. Hér áður fyrr voru þetta náttúrlega fullt af störfum en núna er þetta orðinn bara einn aðili. Stúdíóið mitt er í rauninni bara tölvan.“ Hann líkir tónlistarsköpuninni við myndhögg. „Einhver sem er að búa til höggmynd notast við alls konar tól og tæki til þess að ná styttunni út úr steininum. Alveg eins og við náum laginu út úr súpunni sem við hendum hérna inn,“ segir hann og bendir á tölvuna. Hlustar eða býr til tónlist allan daginn, alla daga Þormóður reynir að vera hnitmiðaður og fanga nákvæmlega það sem lag hefur að segja. Í hljóðverinu byrjar hann gjarnan á einhverjum setningum, melódíum, hljómagangi eða andrúmslofti. „Út frá því finnum við fljótt hvað lagið er um og út frá því oftast einhver hljóð til að gera upplifunina ríkari, og hnitmiða þessa tilfinningu eins vel og ég get.“ Hann segir lagasmíðina lita lífið töluvert. Mikið sé um næturvaktir og hver einasti dagur snúist um að gera lag. Við þekkjum flest hvað tónlist getur haft sterk áhrif á mann, hvað hún getur gjörbreytt skapinu sem maður er í. Kannastu sjálfur við það? „Alveg klárlega. Ég bý við tónlist allan daginn, alla daga, hvort sem ég er hlustandi eða skapari á bak við það er ég endalaust heillaður af tónlist og hún hefur mjög rík áhrif á mann. Ég þekki tilfinningar mínar og hef gaman af þeim og finnst gaman að finna fyrir þeim.“ Einbeitingin skiptir máli Hvernig ferðu að því að búa til tónlist sem hefur svona kröftug áhrif á fólk? „Ég held það sé bara það að vera með meðvitund á meðan maður er að gera lagið og hlusta mjög ákaft. Og fylgjast vel með hvað er að gerast innra með manni sem og í tölvunni. Svo les ég annað fólk alveg rosalega mikið.“ Þormóður spilar tónlistina sína fyrir vini og fjölskyldu til að sjá hvort hún hefur áhrif. „Mér er alveg sama hvort þau segja að þetta sé gott eða ekki, maður bara sér það. Orð eru óþörf. Þá er fólk að vera kurteist, yfirleitt.“ Hann segir ekkert betra en að sjá tónleikagesti lifna við þegar tónlistin hans er flutt. „Það er í rauninni ásetningurinn á bak við þetta, skemmta fólki, láta fólki líða vel og hjálpa fólki að melta tilfinningar.“