Hvassir vindstrengir við suðausturströndina

Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að víðáttumikil lægð suðvestur í hafi og hæð yfir Grænlandi stýri veðrinu hjá okkur. Ákveðin austan- og norðaustanátt í dag og hvassir vindstrengir með suðausturströndinni. Dálítil rigning eða slydda, en þó yfirleitt þurrt á Norðvestur- og Vesturlandi. Norðaustan 10-18 norðvestan- og suðaustantil á morgun, annars hægari vindur. Snjó- eða slydduél norðan- og austanlands, en bjartviðri á Vesturlandi. Hiti yfirleitt 0 til 8 stig, mildast syðra. Hæðin heldur velli yfir Grænlandi næstu daga en lægðin fer austur á bóginn. Vindur snýst þá til norðanáttar, með lítils háttar éljum fyrir norðan og austan og kólnar í veðri.