Þrír látnir í öldugangi á Tenerife

Þrír eru látnir og að minnsta kosti fimmtán slasaðir vegna mikils öldugangs og sjávarhæðar á Tenerife. Spænski miðillinn EFE hefur eftir lögreglu að þau sem létust hafi virt viðvaranir að vettugi sem settar voru upp á strandlengjunni. Sex franskir ferðamenn slösuðust þegar alda hreif þá með sér á Roques de Las Bodegas-ströndinni í Taganana, norður af höfuðborginni Santa Cruz. Öldugangurinn einskorðast við norðurhluta eyjarinnar, en ferðamenn dvelja alla jafna á suðurhluta eyjarinnar. Viðvörun er í gildi á Tenerife vegna óveðurs við ströndina og er fólk beðið um að sýna aðgát og hætta sér ekki nærri sjónum þar sem öldugangur er mikill.