Píratar kjósa sér formann í lok nóvember. Aukaaðalfundur hefur verið boðaður 29. nóvember. Kjósa átti formann á aukaaðalfundi 30. október en vegna formgalla þurfti að fresta kosningunni. Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Pírata, staðfestir að fundarboð hafi verið sent út, en Vísir greindi fyrst frá. Alexandra Briem og Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúar hafa báðar tilkynnt að þær gefi kost á sér til formanns, auk Oktavíu Hrundar Guðrúnar Jóns, framkvæmdastjóra borgarstjórnarflokks Pírata. Inga Þóra Haraldsdóttir er ein í framboði til varaformanns eins og er, en framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en á fundardegi. Píratar hafa aldrei áður haft formann.