Kennt í gámum og „fjósi“

Húsnæðismál eru starfsfólki framhaldsskóla ofarlega í huga. Það kemur ekki á óvart þar sem staðan er víða slæm. Ríkisstjórnin segist leggja áherslu á að efla iðn- og verknám um land allt og boðar framkvæmdir við fjóra verknámsskóla. Undirbúningur er að hefjast að gerð útboðsgagna og stefnt er á að þau verði tilbúin í vetur. Fjölbrautaskóli Suðurnesja er einn þessara fjögurra skóla. Miðað við þær aðstæður sem nemendum og starfsfólki skólans eru búnar hefði þurft að hefja framkvæmdir miklu fyrr því eins og dæmin sanna tekur tíma að byggja skóla ef vanda á til verka. Fjallað er um málefni framhaldsskólanna í þáttaröðinni Stakkaskipti á Rás 1. Um 1300 nemendur eru í FSu. Kristján Ásmundsson skólameistari segir að húsnæðið sé löngu sprungið og ástandið ekki boðlegt, hvorki fyrir nemendur né starfsfólk. Koma fleirum í gáma Síðasta vetur var kennt í sumarbústað sem nemendur í húsasmíði byggðu á skólalóðinni. Það gekk hins vegar ekki í vetur því sumarhúsið tekur færri nemendur en hægt er að koma í gám. „En núna seldum við það vegna þess að þar gátum bara komið inn 15 nemendum með góðu móti. Fengum í staðinn gám því að þar getum við verið með 26-28 nemendur,“ segir Kristján. Í fréttatilkynningu á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins segir að ríkisstjórnin leggi áherslu á að efla iðn- og verknám um allt land. Viðbygging við fimm verknámsskóla sé mikilvægur liður í því. Stefnt sé á að hefja framkvæmdir við skólana í vetur að loknu útboði. Kristrún Frostadóttir kom inn á húsnæðismál verknámsskóla í stefnuræðu sinni í september. Í fréttatilkynningu á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins í júní segir: „Nú í sumar hefst annar áfangi opinberra framkvæmda við fullnaðarhönnun og áætlunargerð vegna viðbygginga við fjóra verknámsskóla. Skólarnir fjórir eru Menntaskólinn á Ísafirði (MÍ), Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FSu), Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (FNV) og Verkmenntaskólinn á Akureyri (VMA) og eru verkin unnin í samstarfi við viðeigandi sveitarfélög. Að auki standa yfir framkvæmdir við viðbyggingu Fjölbrautaskólans í Breiðholti (FB) sem hófust seint á síðasta ári.“ Strandar ekki á fjármagni Í mennta- og barnamálaráðuneytinu liggur uppsafnað fjármagn til þessara framkvæmda upp á 2,6 milljarða króna. Flutningur fjárheimilda milli ára í málaflokknum, í þeirri fjármálaáætlun sem liggur fyrir Alþingi, hefur ekki áhrif á þetta. Að loknum öðrum áfanga framkvæmdanna, þar á meðal hönnun viðbygginganna, á að liggja fyrir uppfærð heildarkostnaðaráætlun og tímalína sem á að endurspeglast í næstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, verði þess þörf. „Ríkisstjórnin hyggst hefja framkvæmdir við fjóra verknámsskóla sem eru Menntaskólinn á Ísafirði, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra og Verkmenntaskólinn á Akureyri. Það strandar ekki á fjármagni – en nú er komið að öðrum áfanga sem snýr að hönnun og nákvæmari áætlanagerð. Því til viðbótar klárum við viðbyggingu Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Við látum verkin tala í þessu eins og öðru,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, í fréttatilkynningunni . Eru í gámum alla skólagönguna Í FSu er kennt í þremur gámum á skólalóðinni, uppi á lofti í íþróttahúsinu og á Ásbrú, sem ekki er hægt að segja að sé í nágrenni við skólann. Kristján segir þetta engan veginn boðlegt og það síðasta sem hann heyrði frá Framkvæmdasýslu ríkisins var að vegna álags, svo sem vegna sumarleyfa, væri þetta ekki farið af stað. „Við getum ekki annað en vonað að þetta fari af stað, eða eins og við segjum, nemendur hérna eru búnir að vera í gámum, bæði í Holtaskóla og Myllubakkaskóla. Þó svo að það sé alveg hægt að búa til þokkalega aðstöðu í svona gámum þá vill maður að það sé betur búið að nemendum en að hafa þá í gámum alla skólagönguna, frá grunnskóla og til loka framhaldsskóla. Finnst mér alla vega,“ segir Kristján. Þetta hefur áhrif á inntöku nemenda þar sem ekki er hægt að taka á móti öllum sem sækja um verknám, hvort heldur er í rafvirkjun eða smíði, segir Kristján. Til að mynda eru nemendur í pípulagningum í skúr á lóðinni sem er kallaður fjósið. Áður var skúrinn meðal annars nýttur sem reiðhjólageymsla. „Þetta var geymsla og þess vegna keyptum við gám til að setja hérna niðri til þess að færa dótið úr fjósinu og búa til aðstöðu fyrir pípulagnadeildina. Þannig að eins og maður segir þetta er ekki sú aðstaða sem maður vill bjóða upp á en því miður vantar bara sárlega pláss.“ Kristján segir að það sé ekkert skemmtilegt þegar ungmenni koma úr grunnskólum Suðurnesja í heimsókn til að kynna sér skólann þá mæti þeim yfirfullar stofur. Það sé ekkert voðalega spennandi umhverfi fyrir framhaldsnám. Hann telur að þetta hafi líka áhrif á hversu margir sækja um verknám. Kristín Þóra Möller, íslenskukennari og verkefnastjóri erlendra nemenda í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, tekur undir með Kristjáni og segir að húsnæðisvandinn sé stærsta hindrunin í skólastarfinu. „Skólinn er alveg sprunginn og við erum komin með þrjár útikennslustofur og búið að minnka bókasafnið og breyta geymslu í kennslustofu. Alls staðar þar sem hægt er að koma fyrir fólki er fólk, sem gerir líka að verkum að það er ekki hægt að ráða fleiri kennara,“ segir Kristín Þóra. Nemendur á íslenskubraut þurfa mikinn stuðning en vegna plássleysis eru hóparnir allt of stórir, að sögn Kristínar. Hún óttast að þetta skerði þjónustuna sem nemendurnir fá. Allt upp í 27 nemendur eru í þessum hópum en kjörstærð er 12-14 nemendur í hverjum hóp. Verknámshús í byggingu Nýtt verknámshús er í byggingu við elsta fjölbrautaskóla landsins, Fjölbrautaskólann í Breiðholti, og skólastjórnendur segja að það komi til með að gjörbreyta aðstöðu fyrir ýmsar verknámsgreinar. Víðir Stefánsson aðstoðarskólameistari FB segir að í lok árs 2026 verði vonandi tekið í notkun nýtt verknámshús. Þangað flytja rafvirkjabraut, húsasmíðabraut og listnámsbraut. „Þannig að við erum að fara inn í mjög bjarta tíma hvað varðar verknámið,“ segir Víðir. Hátt hlutfall nemenda FB er í verknámi og vonir standa til þess að hægt verði að fjölga nemendum í þessum greinum því mun fleiri sækja um en hægt er að taka inn. Í FB eru um tvö þúsund nemendur, 1300 í dagskóla og 700 í kvöldskóla. Berglind Halla Jónsdóttir áfangastjóri segir að um 40% nýnema búi í Breiðholti. FB er með framhaldsskólabraut fyrir nemendur sem ekki hafa náð tilskildum árangri á grunnskólaprófi fyrir nám á verknáms- eða stúdentsbraut við skólann. Gert er ráð fyrir að stór hluti nemenda á framhaldsskólabraut hefji nám á annarri námsbraut eftir eina til tvær annir. Á brautinni er öflugt umsjónarkennarakerfi, mikið samráð við forráðamenn og nemendur fá aðhald og stuðning í námi. Nemendur úr Breiðholti og nágrenni hafa að öllu jöfnu forgang á þessa braut. Í haust voru teknir inn 24 nemendur, miklu fleiri en gert er ráð fyrir þar sem miðað er við 18 nemendur í bekk. Eins er íslenskubraut fyrir útlendinga í skólanum og krakkar í Breiðholti hafa einnig forgang á hana. Teknir eru 15 nemendur inn í bekk á þeirri braut. Þau eru eitt ár á brautinni og aðaláherslan er á að kenna þeim íslensku. Síðan fara þau á aðrar brautir og íslensku sem annað mál. Þetta eru um 22% af nemendum skólans. Rúmlega 5.100 nýnemar settust á skólabekk í framhaldsskólum landins í haust og það var ekki einfalt fyrir skólastjórnendur að koma þeim öllum fyrir. Geymslum var breytt í kennslustofur og þrengt að lesaðstöðu nemenda. Auka þarf samtal við atvinnulífið Stefna FB er að leggja jafna áherslu á bók-, list- og verknám. Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari vill tengja atvinnulíf og verknám betur saman. „Ég er þeirrar skoðunar að samtal við atvinnulífið sé allt of lítið og það verði að auka. Stjórnvöld verða að hafa frumkvæði að því. Í öðrum löndum tekur atvinnulífið virkan þátt í verknámi. Hér hefur verið dregið úr þeim þætti og það er að mínu mati mjög vont. Þetta tel ég að verði að skoða miklu betur“, segir Guðrún Hrefna. Ein af nýjungunum í starfi framhaldsskóla er lotunám sem tekið hefur verið upp í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og er ætlað nemendum sem eru nýkomnir til landsins. Þar er megináherslan lögð á íslensku og fræðslu um íslenskt samfélag. Sjö hófu þetta nám í haust. Fyrirkomulagið á lotunáminu er með þeim hætti að kennt er í tveimur sex vikna lotum fyrir áramót og öðrum tveimur lotum eftir áramót. Þetta felur í sér að nýkomnir nemendur sem eru byrjendur í íslensku hafa tök á að innritast mjög fljótlega eftir komuna til landsins og hefja undirbúning að frekara námi. Í þáttaröðinni Ásjá, fyrir tveimur árum, var fjallað um Háaleitisskóla á Ásbrú sem er með móttökudeild fyrir erlenda nemendur sem eru nýkomnir til landsins. Rúmlega 5.100 nýnemar settust á skólabekk í framhaldsskólum landins í haust og það var ekki einfalt fyrir skólastjórnendur að koma þeim öllum fyrir. Geymslum var breytt í kennslustofur og þrengt að lesaðstöðu nemenda. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að margir nemendur FB og Fjölbrautaskóla Suðurnesja eru með erlendan bakgrunn og í báðum skólum er lögð mikil áhersla á að styðja nemendur sem best við að komast inn í nám á íslensku. Brynja Stefánsdóttir, kennslustjóri FB, segir að flestir nemendurnir á íslenskubraut séu nýkomnir til landsins og algjörlega ótalandi á íslensku. Þeir koma víða að og hafa mjög ólíkan skólabakgrunn. Sum eru óvön latnesku stafrófi þannig að það er himinn og haf á milli nemenda. Mikið af námsefninu er heimatilbúið en Brynja segir að það sé alltaf verið að efla námsefni fyrir þennan hóp. Samstarf þeirra kennara sem kenna nemendum með erlendan bakgrunn sé gott og fari meðal annars fram í Ísbrú, félagi kennara í íslensku sem öðru máli. Ítarlegri umfjöllun um íslenskunám fyrir nemendur með erlendan bakgrunn er að finna í fjórða þætti Stakkaskipta. Í elsta framhaldsskóla landsins, Menntaskólanum í Reykjavík, er ekki kennt í gámum en húsnæðið er löngu sprungið. Skólahald hófst á núverandi stað í miðbæ Reykjavíkur árið 1846 í húsi sem í daglegu tali nefnist Gamli skóli. Sólveig Hannesdóttir, rektor MR, þekkir fyrirheit um framkvæmdir án efnda. Húsnæðisvandi skólans sé ekki til áratuga heldur árhundraða. „Nemendur MR hafa aldrei haft grundvallaratriði sem aðrir nemendur hafa haft í framhaldsskólum, til dæmis aðgengi fyrir fatlaða. Þau hafa ekki haft stað til að koma saman nema örfáir bekkir í einu. Þetta er svo ofboðslega lítið húsnæði. Það er bara ofboðslega lítið pláss.“ Gamli skólinn er mjög fallegt hús og Sólveig segist fyrir alla muni vilja halda kennslu áfram þar. Kennslustofur hafi til dæmis verið uppfærðar og nútímatækni komið fyrir. En það vantar kennslustofur og pláss fyrir fjölmenna árganga eins og í ár og árið á undan. Greiða rándýra leigu Stóru húsi á menntaskólareitnum, Casa Christi, var lokað 2021 vegna myglu og bleytu. Úttekt á húsinu leiddi í ljós að það var ekki boðlegt undir kennslu. Húsið er enn lokað. Það var hugsað sem bráðabirgðahúsnæði í meira en 30 ár og fékk því ekkert viðhald, segir Sólveig. Húsið er í eigu Framkvæmdasýslu ríkisins. „Það er mjög brýnt að við sjáum einhverja framtíðarlausn. Við erum að leigja húsnæði niðri í Austurstræti fyrir nánast heilan árgang og sá árgangur er þá ekki á menntaskólareitnum. Hann er einangraður þessi árgangur og mér finnst, ég held að það sé bara ljóst, að þessi félagslegi þáttur í framhaldsskóla, við höfum bara séð að það er með mikilvægustu þáttum framhaldsskólatímabilsins. Þetta er sá tími sem ungmenni eru að þroskast, þeirra sjálfsmynd er að myndast. Þau eru að mynda vinabönd og styrkja vinabönd sem hafa verið til fyrir og við sáum það þegar við vorum að kljást við heimsfaraldur að þetta er eitthvað sem skiptir gífurlegu máli.“ Leigusamningurinn rennur úr 2029 og Sólveig segir að leiguhúsnæðið sé rándýrt. Á meðan ríkið greiðir háa húsaleigu séu hús í þess eigu að grotna niður. Þrátt fyrir fullyrðingar í gegnum tíðina, jafnvel um að það sé til fjármagn til að gera breytingar á húsakosti skólans, gerist ekki neitt. Hún vonast til að þetta standi til bóta. Skólinn á 180 ára afmæli á næsta ári og það væri afskaplega góð afmælisgjöf frá ríkinu að taka annað hvort skóflustungu að nýju skólahúsi eða byrja að gera Casa Christi upp. Rúmlega 5.100 nýnemar settust á skólabekk í framhaldsskólum landins í haust og það var ekki einfalt fyrir skólastjórnendur að koma þeim öllum fyrir. Geymslum var breytt í kennslustofur og þrengt að lesaðstöðu nemenda. Þáttaröðin Stakkaskipti er á Rás 1 klukkan 10.15 á sunnudagsmorgnum. Fjórði þátturinn er í spilaranum hér fyrir ofan.