Sló heimsmet á Íslandsmótinu í sundi

Undanrásir þriðja og síðasta keppnisdags Íslands- og unglingameistaramótsins í 25 metra laug hófust með látum í Laugardalslaug í morgun, þar sem sett voru bæði heimsmet og tvö Íslandsmet í flokki fatlaðra. Snævar Örn Kristmannsson úr Breiðabliki stal senunni þegar hann synti 50 metra flugsund í flokki S19 á nýju heimsmeti, 26,79 sekúndum. Hann bætti þar með fyrra heimsmet Daniel Smith frá Nýja-Sjálandi sem hafði staðið í rúmt ár, 26,96 sekúndur. Þetta var að sjálfsögðu nýtt Íslandsmet hjá Snævari og annað Íslandsmet morgunsins setti Sonja Sigurðardóttir (ÍBR) í 100m skriðsundi í flokki S3, þegar hún synti á 2:40,46 mínútur. Bein útsending hefst frá úrslitahluta lokakeppnisdags Íslandsmótsins á RÚV 2 klukkan 16:30 í dag.