Ferðatími á höfuðborgarsvæðinu lengist jafnt og þétt

Rannsóknir sýna að ferðatími í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu lengist jafnt og þétt og segir sérfræðingur sem hefur rannsakað þetta að eitthvað verði að gera til að hægja á þeirri þróun. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu þekkja það væntanlega flestir af eigin reynslu að umferðin á vissum svæðum getur verið mjög þung, einkum á morgnana og síðdegis og langan tíma getur tekið að fara tiltölulega skamma leið. Sigríður Lilja Skúladóttir, sérfræðingur í umferð og umferðaröryggi hjá Vegagerðinni, hefur undanfarin ár rannsakað umferðartafir á þessu svæði. Hún valdi tiltekna staði eins og Reykjanesbraut, Kringlumýrarbraut og Vesturlandsveg og ýmsar styttri leiðir eins og Sæbraut og Kaplakrika, svo dæmi séu tekin. Rannsóknir hennar hafa staðfest það sem ökumenn hafa upplifað að það eru álagspunktar um morgna og síðdegis eins og á Sæbraut, Ártúnsbrekku, við Kringluna og Kaplakrika, sem lengja ferðatímann. „Hann er að aukast. Af því að ég er búin að bera saman árin, hann er að aukast hægt og þétt og ef við höldum áfram svona verðum við að gera eitthvað, við þurfum að breyta einhverju til að hægja á þessari þróun,“ segir Sigríður Lilja. Hún segir tölurnar sýna að tafirnar eru meiri síðdegis heldur en árdegis. Hún vonast til að aukin ferðatíðni strætó muni bæta ástandið en of skammt er um liðið frá því hún var aukin til að hægt sé að leggja almennilega mat á áhrifin. Hún bendir á að ef að fólk getur ferðast frekar utan helsta annatímans, sem er frá 16:20 til 16:30, gæti það bætt ástandið, einnig með því að vinna frekar heima ef það er kostur eða reyna að hliðra vinnutímanum til eða nota almenningssamgöngur. Vissulega setji leikskólar og skólar almennt fólki tímaramma. Aðspurð hvort að ástandið kalli einnig á breytingar á samgöngumannvirkjum segir Sigríður Lilja: „Það getur vel verið. Það var breyting á ljósum á milli þessara ára í Kaplakrika, þá sá ég smá breytingu, það var rýmkað aðeins fyrir umferð en kannski er komið að mörkum núna.“ Umferðin eykst um 5% á ári Þá minnir hún á að í Samgöngusáttmálanum sé áhersla á samgöngumannvirki á álagspunktum, eins og stokk á Sæbraut og fleira. „Þá er umferð að aukast um 5% á ári þannig að það er líka flöskuhálsinn, að það er alltaf að aukast umferðin, þannig að við verðum eiginlega að dreifa úr henni líka eða velja aðra ferðamáta.“