„Jóhanna Knudsen, kölluð Dúlla af ástvinum sínum, er alræmd vegna rannsóknar hennar á siðferðisástandinu í Reykjavík á árum seinni heimsstyrjaldar. Nærgöngular yfirheyrslur hennar yfir stúlkum sem grunaðar voru um samneyti við erlenda hermenn hafa verið kallaðar umfangsmestu persónunjósnir Íslandssögunnar. En hver var Dúlla Knudsen?“ Svona hefst lýsing á ævisögunni Fröken Dúlla eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Fjallað var um bókina í Kiljunni. „Það má lesa aftan á kápuna og maður veit hvað þessi kona gerði. Þá byrjar maður að lesa. Maður verður kannski pínulítið óþolinmóður í byrjun því það er verið að fjalla um ætt hennar og uppvöxt,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir gagnrýnandi. Hún hafi hugsað á tímabili hvort ekki mætti fara hraðar yfir sögu. „En þegar ég er búin að lesa bókina er ég sannfærð um að þetta er rétt aðferð hjá Kristínu. Vegna þess að konan er svo sérstök, það sem hún tekur sér fyrir hendur er svo sérstakt og næstum því óskiljanlegt á nútímamælikvarða.“ Ekki vera of viss um að málstaður ykkar sé réttur „Hún er svona íslenskusiðgæðisvörður og ætlar að forða íslenskum konum og stúlkum frá erlendum hermönnum, stundar þarna viðamiklar persónunjósnir, skrifar skýrslur og yfirheyrir þær. Þegar maður er kominn að þessum kafla í bókinni þá er þetta algjörlega sláandi,“ segir Kolbrún. „Ég verð að hrósa höfundi fyrir það að hún er ekki að fordæma söguhetjuna. Maður fær ákveðna samúð með Dúllu vegna þess að hún trúir á það sem hún er að gera. Hún er svo innilega sannfærð um að það sem hún er að gera er rétt. Þetta er nánast eins og trúarhiti.“ „Þetta er enginn vitleysingur, þetta er kona sem er hjúkrunarkona og fer í lögregluna. Svo stofnar hún tímarit sem Halldór Laxness skrifar í. En persónan er svo sérstök og það kemst svo vel til skila að hún lifir í algjörum misskilningi en hún er svo sannfærð.“ Kolbrún segir þessa bók vera hálfgert víti til varnaðar, að fólk ætti ekki að vera ekki allt of sannfært um að málstaður þeirra sé hinn eini rétti. Afraksturinn er góð bók „Dúlla var ákveðin, svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ segir Ingibjörg Iða Auðunardóttir. Sagan af njósnum Jóhönnu Knudsen er vel þekkt en það sem stóð upp úr að mati Ingibjargar er æska hennar. „Faðir hennar var stórmerkilegur maður, góðtemplari með meiru, mikill bindindismaður og leikari líka, það fór greinilega saman. Þetta er bara svo nákvæmt en á sama tíma er þetta aldrei stíft.“ „Textinn er aldrei stirður, þetta rennur mjög vel og mér finnst aðdáunarvert hvernig Kristínu Svövu tekst að flétta saman akademískri nákvæmni við einhvers konar flettiorku,“ segir hún. Henni þykir vel haldið utan um mjög áhugavert efni með ýmsum heimildum sem aldrei hafa litið dagsins ljós áður. „Afraksturinn er bara góð bók.“ Er ekki að segja söguhetjan sé vond kona Kolbrún tekur undir orð Ingibjargar og segir Fröken Dúllu mjög góða bók. Það sé mikið af góðum aukapersónum sem ættu skilið eigin sögu. „Svo eru konurnar sem svara Dúllu alveg fullum hálsi og segja: Þetta er rangt sem þú ert að gera, kolrangt. Hún reiðist mjög.“ „Svo er reyndar vert að taka það fram að Kristín Svava blandar sér stundum í frásögnina og það er ekkert auðvelt fyrir sagnfræðing að segja ég en hún gerir þetta óskaplega vel. Ég er sannfærð um að þetta er bók sem margir hefðu ánægju af að lesa. Þetta er mjög áhugaverð bók.“ Ingibjörg segir að hún hafi staðið í þeirri trú að þessar njósnir hafi verið samfélagslega samþykktar á sínum tíma. „En Kristín kemur því mjög vel til skila að þetta var nú bara alls ekki óumdeilt og hún hlaut ekki brautargengi í öllum sínum áætlunum. Og það er gaman líka þegar hún stígur sjálf fram, þá verður þetta manneskjulegt.“ Kolbrún segir að hér sé höfundur ekki að stíga fram og segja að Jóhanna Knudsen hafi verið vond kona, heldur gefi hún innsýn í hvers vegna hún gerði það sem hún gerði. „Þetta er mjög góð bók,“ segja gagnrýnendur Kiljunnar um Fröken Dúllu, ævisögu sem Kristín Svava Tómasdóttir ritaði. Jóhanna Knudsen stundaði nærgöngular yfirheyrslur yfir stúlkum í Reykjavík sem grunaðar voru um samneyti við erlenda hermenn. Gagnrýnendur fjölluðu um Fröken Dúllu í Kiljunni á RÚV. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.