Nær allt vatn í höfuðborg Írans, Teheran, er að verða uppurið eftir mestu þurrka í áratugi. Forseti landsins varar við því að klárist vatnið þurfi að flytja alla borgarbúa á brott. Tíu milljónir manna búa í Teheran og vegna vatnsskorts undirbúa borgaryfirvöld skömmtun á vatni. Venjan er að það rigni á haustin í Íran en sú varð ekki raunin víða í landinu í ár. Mohammad Ali Moallem, yfirmaður við Karaj vatnsbólið, segir í samtali við AP fréttaveituna að úrkoma í ár sé 90 prósentum minni en í fyrra. Því séu birgðir í lágmarki, aðeins 8 prósent af geymslugetu. Masoud Pezeshkian forseti Írans sagði í sjónvarpsávarpi á föstudag að ef vatnið myndi klárast þyrftu allir íbúar, tíu milljónir talsins, að rýma borgina. Stjórnvöld hafa ekkert gefið út um hvernig þeim flutningum yrði háttað eða hvert fólk gæti farið. Það er nefnilega ekki aðeins vatnsskortur í höfuðborginni, heldur einnig í helmingi héraða landsins. í borginni Mashhad í norðausturhlutanum eru vatnsbirgðir komnar undir 3 prósent.