Ríkið ætlar að skoða hvort þau fyrirtæki sem höfðu hagsmuni af varnaraðgerðum, sem ráðist var í vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga, eigi að bera hluta af ellefu milljarða króna kostnaði. Fjármálaráðherra hefur beðið héraðsdóm að dómkveðja matsmenn til að meta kostnað ríkissjóðs af varnaraðgerðunum. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir ríkið fyrst og fremst hafa verið að vernda byggð á Reykjanesskaga. Nokkuð sérstakt sé að ætla að rukka einstaka fyrirtæki eftir á. „Stjórnvöld voru að vernda alla byggð á Suðurnesjum með þessum aðgerðum sem sneru að okkur. Við vorum í raun og veru aldrei við borðið þegar ákvörðunin var tekin en ákvörðun var tekin um að vernda frekar hitaveituna heldur en að láta hraun renna þar yfir,“ segir Tómas. Hann segir það sérstakt ef ætlunin er að skattleggja einstaka fyrirtæki eftir á. „Þetta var aðgerð sem sneri að því að vernda allar fasteignir á Suðurnesjum. Og það þótti bara eðlilegra og ég held að það sé langeðlilegast enn þá að vernda hitaveituna sjálfa en ekki kannski hvert einasta hús. Það hefði verið miklu, miklu dýrara.“