Öryggismál trössuð í Louvre – nafn safnsins notað sem lykilorð

Stjórnendur Louvre-listasafnsins í París hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að vanrækja öryggismál. Þjófnaður á níu gripum úr skartgripasafni Napóleons hefur vakið heimsathygli. Þjófarnir voru íklæddir gulum vestum eins og iðnaðarmenn og notuðu körfubíl til að komast inn um glugga safnsins. Þeir hófu á brott með sér verðmæti sem metin eru á 88 milljónir evra, 12 milljarða króna, og komust undan á rafhlaupahjólum. Þjófnaðurinn tók alls sjö mínútur. Margar spurningar hafa vaknað um hvernig svona geti gerst á einu frægasta listasafni heims. Í vikunni var birt skýrsla endurskoðendaráðs, sem var þó unnin fyrir þjófnaðinn. Niðurstöður skýrslunnar eru á þá leið að stjórnendur safnsins hafi árum saman kosið að fjárfesta í nýjum listaverkum og sýningum frekar en að sinna grunnviðhaldi og öryggismálum. Niðurstöðurnar renna stoðum undir gagnrýni sem safnstjórnin hafði fengið á sig í kjölfar ránsins, meðal annars frá menningarráðherra Frakklands. Meðal þess sem fram hefur komið í umfjöllun franskra fjölmiðla um öryggismál Louvre í vikunni að lykilorðið til að komast inn í öryggismyndavélakerfi safnsins árið 2014 hafi einfaldlega verið nafnið á safninu, Louvre. Þrír hafa verið ákærðir vegna þjófnaðarins, tveir karlar og ein kona. Þýfið er enn ófundið.