Sæðisbanki útilokar sæðisgjafa með lága greindarvísitölu

Sæðisbanki í Danmörku tiltekur greindarvísitölu sæðisgjafa og hvort þeir hafi hreint sakarvottorð. Sæðisgjafar með lægri greindarvísitölu en 85 verða útilokaðir. Þegar fólk velur sæðisgjafa hjá sæðisbönkum getur það valið til dæmis út frá upplýsingum um augnlit, sjúkrasögu og hæð. Sæðisbankinn Donor Network í Danmörku hefur bætt við upplýsingum um greindarvísitölu og sakarferil. Sæðisgjafar með lægri greindarvísitölu en 85 fá ekki að gefa sæði og ekki heldur þeir sem hafa komist í kast við lögin. Meðalgreindarvísitala Dana er um 100. Verðandi foreldrar vilja upplýsingar um persónuleika sæðisgjafa DR, danska ríkisútvarpið , hefur eftir forstöðumanni sæðisbankans, Jakob Schöllhammer Knudsen, að síðustu tíu til fimmtán ár hafi sæðiskaupendur í meira mæli óskað eftir upplýsingum um persónuleika sæðisgjafa. Hann segir upplýsingum um greind og sakarferil bætt við með hag verðandi foreldra í huga. Hann telur það ekki vera siðferðislega rétt að selja eitthvað sem hann geti ekki ábyrgst. Siðfræðingur geldur varhug við nýju reglunum Þá hefur DR eftir Danielu Cutas, dósent í siðfræði við háskólann í Lundi í Svíþjóð, að það sé skynsamlegt að skima sæðisgjafa fyrir erfðafræðilegum sjúkdómum. Það sé hins vegar hæpin forsenda að há greindarvísitala sé endilega trygging fyrir góðu lífi barnsins. Hún óttast að valkostir sem þessir geti orðið til þess að foreldrar hafi svo miklar væntingar til barnsins að erfitt geti orðið fyrir það að standa undir þeim.