Tveir látnir af völdum ofurfellibylsins Fung-wong

Að minnsta kosti tveir eru látnir eftir að fellibylurinn Fung-wong gekk á land á Filippseyjum. Rafmagnslaust er víða um landið og rask hefur verið á samgöngum. Yfir milljón íbúar yfirgáfu heimili sín vegna Fung-Wong, sem er flokkaður sem ofurfellibylur. Samfelldur vindur getur náð allt að 51 metra á sekúndu og hviður geta náð enn hærri styrk. Aðeins vika er síðan fellibylurinn Kalmaegi gekk yfir landið, sem kostaði að minnsta kosti 204 lífið. Fjölda er enn saknað. Forseti Filippseyja, Ferdinand Marcos Jr., lýsti yfir neyðarástandi þegar ljóst varð hversu öflugur fellibylurinn Fung-wong yrði. Hann fór í dag yfir mið- og austurhluta eyjanna og var íbúum við sjó sérstaklega bent á að gæta varúðar. Fellibylsins varð vart um nær allt landið. Margir leitaðu skjóls í fjöldahjálparstöðvum. Veðurstofa Filippseyja telur að fellibylurinn muni einnig hafa í för með sér mikla rigningu og varar við lífshættulegum flóðbylgjum. Skólastarfi hefur verið aflýst víða á mánudag og yfir 300 flugferðum sömuleiðis. Ár hvert eru nokkrir fellibylir á Filippseyjum. Vísindamenn segja að vegna loftslagsbreytinga séu þeir bæði öflugri en áður og tíðari.