Þjófstart og nægjusemi í afsláttarmánuðinum mikla

Nóvember er á skömmum tíma orðinn afsláttamánuðurinn mikli. Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir það hafa komið verslunareigendum á óvart hversu mikil spenna skapast í kringum afsláttardaga, en Landvernd hvetur landsmenn til að tileinka sér nægjusemi í nóvember. Íslenskir verslunareigendur hafa í auknum mæli tekið upp erlenda siði og boðið afsláttardaga í nóvember. Fyrstur í röðinni er dagur einhleypra á þriðjudag, ellefta nóvember, en afsláttur vegna hans hefur þegar tekið gildi í einhverjum verslunum. Í lok mánaðarins má eiga von á tilboðum á Svörtum föstudegi og Netmánudegi en oft gilda tilboðin einnig laugardag og sunnudag. „Þetta skapar mikla stemningu meðal neytenda. Þeir hefja þá jólaundirbúninginn fyrr og þetta dreifir álaginu í versluninni,“ segir Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Hann segir félagsmenn ekki kannast við að neytendur finni fyrir einhvers konar tilboðsþreytu eða -blindu, og segir að neytendur eigi að geta treyst því að vörur séu sannarlega seldar á afslætti. „Ég frekar heyri þau sjónarmið að eftir því sem árin líða er spenningur neytenda fyrir afláttardögunum að aukast. Þetta kannski hefur komið mönnum pínulítið í opna skjöldu hvað þetta er orðið umfangsmikið og hvað þetta er orðinn stór partur af versluninni,“ segir Benedikt. Eru þetta alvöru afslættir ef hægt er að bjóða þá í svona langan tíma? „Þú ert að lækka verð. Innkaupsverðið á vörunni er ekki að breytast. Ef þú heldur úti afsláttum í einhvern lengri tíma, Ég sé ekki hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki afsláttur,“ segir Benedikt. „Þetta ætti, ef vel tekst til, að lækka kostnaðinn hjá versluninni, af því í versluninni þá er veltuhraði birgða það sem getur í raun og veru skipt verulegu máli, bara þegar það kemur að því að halda niðri kostnaði. Ef þetta er þannig að menn geta þá dreift þessu og varan fer hraðar út með þessu fyrirkomulagi, þá held ég að þetta ætti að vera „win win“ fyrir alla aðila.“ Nægjusamur nóvember stuðlar ekki bara Umhverfisverndarsamtökin Landvernd standa fyrir átakinu Nægjusamur nóvember. Ragnhildur Katla Jónsdóttir upplýsingafulltrúi segir nóvember ekki aðeins hafa orðið fyrir valinu vegna þess að hann stuðlar við nægjusemi heldur einnig vegna þess auglýsingaáreitis sem fólk verði fyrir á þessum árstíma. „Það eru afsláttardagar hægri, vinstri, þar sem sumar búðir leggja jafnvel í það að vera með svartan föstudag eða jafnvel svartan mánuð, það er „Single's day“ og „Cyber Monday“. Og þetta er allt saman gert til þess að láta okkur kaupa, kannski eitthvað sem okkur vantar ekki einu sinni,“ segir Ragnhildur. „Í svona nútímaheimi þar sem við eigum flest nóg, það er alltof mikið til af dóti og drasli að þá er þetta átak gert til þess að vega svolítið á móti, hvetja fólk, ekki til að hætta algjörlega til að kaupa, sérstaklega ekki ef það þarf eitthvað, en hugsa kannski aðeins fyrst, glepjast ekki af tilboðum sem þeir þurfa ekki á að halda,“ segir Ragnhildur. Hún segir alla geta tekið þátt í nægjusömum nóvember. „Það að taka þátt í nægjusömum nóvember er bara að taka þátt í samræðunum. Að hugsa áður en við kaupum.“