Íslandsbanki veitir verðtryggð lán á ný

Íslandsbanki hefur ákveðiðað hefja á ný veitingu verðtryggðra húsnæðislána á föstum vöxtum. Bankinn gerði tímabundið hlé á lánveitingunum eftir dóm Hæstaréttar í síðasta mánuði. Nýju lánin eru á föstum vöxtum til fimm ára í senn en vaxtakjörin byggja á vaxtaviðmiði Seðlabankans. Lánin standa öllum fasteignakaupendum til boða, bæði fyrstu kaupendum og öðrum. Í tilkynningu frá bankanum segir að þegar fastvaxtatímabilinu lýkur ákvarðist vextirnir af því sem lægra er: sambærilegum kjörum á nýjum verðtryggðum húsnæðislánum með sama binditíma vaxta og veðsetningarhlutfalli eða föstum lánstímavöxtum Seðlabankans fyrir verðtryggð fimm ára lán að viðbættu vaxtaálagi.