Steypuvinnu við nýja brú yfir Breiðholtsbraut er lokið. Alls fóru 1650 rúmmetrar af steypu í brúna eða sem nemur 205 steypubílum. Breiðholtsbraut á milli Jaðarsels og Vatnsendahvarfs verður opnuð fyrir umferð á ný klukkan fimm í nótt. Lokað hefur verið fyrir umferð frá því á föstudag vegna vinnu við að steypa nýja brú yfir brautina. Næstu tíu til fjórtán daga verður þessi sami kafli lokaður á nóttunni, frá klukkan tíu á kvöldin til klukkan hálf sjö á morgnana. Fyrstu dagana, á meðan steypan er að harðna, verður hæðartakmörkun fjórir metrar, en eftir það verður hæðartakmörkun fjórir komma tveir metrar. Hámarkshraði verður 30 kílómetrar á klukkustund á meðan unnið er við brúna. Vegagerðin ítrekar að mjög mikilvægt er að verktakar, flutningsaðilar, sem og aðrir virði hæðartakmarkanir svo ekki verði slys á fólki eða skemmdir á brúnni. Hámarkshraði hefur verið lækkaður í 30 km/klst á meðan unnið er við brúna.Vegfarendur eru beðnir um að sýna tillitssemi og þolinmæði meðan á framkvæmum stendur.