Tim Davie, útvarpsstjóri BBC, og Deborah Turness fréttastjóri hafa sagt af sér embætti vegna fölsunar á ræðubút Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í heimildarmynd sem var sýnd á BBC. Þau greindu frá þessu fyrir skemmstu. Í tilkynningu frá Davie segist hann axla ábyrgð á þeim mistökum sem hafi verið gerð innan fréttastofunnar. BBC sé einstök stofnun en þurfi alltaf að gæta að gagnsæi og ábyrgð. Orð Donalds Trumps slitin úr samhengi Breska blaðið Telegraph greindi frá því í síðustu viku að BBC hefði splæst saman tveimur óskyldum bútum úr ræðu sem Trump flutti í janúar 2021 til að láta líta út fyrir að hann hefði hvatt stuðningsmenn sína til að ráðast inn í þinghúsið. „Við ætlum að labba niður að þinghúsi og berjast -- berjast eins og andskotinn,“ hljómaði þetta í útgáfu sem BBC sýndi í þættinum Panorama. Hið rétta er að Trump sagði: „Við ætlum að labba niður að þinghúsi og hvetja hugrökku þingmennina okkar til dáða.“ Seinni hluti klippunnar um að berjast eins og andskotinn var vissulega úr ræðunni, en í öðru samhengi 50 mínútum síðar. Lisa Nandy menningarmálaráðherra Bretlands hafði sagt í viðtali í dag að stofnunin líti þetta alvarlegum augum og það geri hún líka. Stjórnarformaður BBC, Shamir Shah, hafði sagst mundu veita henni skýringar á morgun. Þá var búist við því að BBC muni biðjast formlega afsökunar á morgun. Ráðherrann segir í viðtalinu að oft sé ósamræmi í ritstjórnarákvörðunum BBC, stefnu og hugtakanotkun. Þannig virðist slíkt of oft vera sett í hendur einstakra blaðamanna.