Man City nálgast toppinn eftir stórsigur á Liverpool

Manchester City tók á móti Liverpool í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta síðdegis. Fyrir leikinn var Man City með 19 stig en Liverpool 18 stig. Stigin í boði voru afar mikilvæg í baráttunni um að saxa á forskot toppliðs Arsenal (26 stig) sem gerði aðeins jafntefli við Sunderland í gær eftir langa sigurgöngu. Man City fékk umdeilda vítaspyrnu á 12. mínútu. Giorgi Mamardashvili markvörður Liverpool varði hins vegar vítaspyrnuna frá Erling Haaland. Norðmaðurinn bætti hins vegar fyrir þau mistök á 30. mínútu þegar hann skoraði frábært skallamark eftir sendingu frá Matheus Nunes. Þetta var 99. mark Haaland í ensku úrvalsdeildinni. Þegar komið fram í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði Nico González annað mark fyrir City sem var 2-0 yfir í hálfleik. Örlítill heppnisstimpill var á markinu því boltinn hafði viðkomu af Virgil van Dijk og það tók Mamardashvili markmann úr jafnvægi. Jérémy Doku kórónaði stórleik sinn þegar hann bætti svo þriðja marki heimamanna við á 63. mínútu og gerði endanlega út um leikinn. Doku hafði leikið 24 deildarleiki í röð án þess að skora en það gerði hann síðast í janúar. 3-0 urðu lokatölur og Man City fór tveimur stigum upp fyrir Chelsea í annað sætið með 22 stig, fjórum stigum á eftir toppliðinu Arsenal. Liverpool er áfram með 18 stig í áttunda sæti deildarinnar. Aston Villa í stuði Fjórir leikir fóru fram í deildinni fyrr í dag. Bournemouth er að fatast flugið eftir að hafa verið í toppbaráttunni og tapaði öðrum leik sínum í röð. Bournemouth steinlá 4-0 fyrir Aston Villa sem hefur unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í deildinni og eitt af fjórum liðum sem eru með 18 stig í sjötta til níunda sæti. Nottingham Forest vann sinn fyrsta sigur undir stjórn nýja knattspyrnustjórans Sean Dyche og er nú aðeins einu stigi frá því að komast úr fallsæti. Úrslit dagsins Aston Villa - Bournemouth 4-0 Brentford - Newcastle 3-1 Crystal Palace - Brighton 0-0 Nottingham Forest - Leeds 3-1 Manchester City - Liverpool 0-0