Allt er nú gert til að stytta langa bið eftir að hægt verði að koma álframleiðslu í fullan gang hjá Norðuráli á Grundartanga. Ekki er komið í ljós hvort tryggingar bæta allt tjón, segir forstjórinn. Stríð í Úkraínu hefur áhrif á orkuinnviði á Íslandi, sagði sviðsstjóri Raforkueftirlitsins í sjónvarpsfréttum í gær. Árásir beinast oft að orkuinnviðum. Skemmdir á þeim auka eftirspurn eftir varahlutum. Aukin eftirspurn þýðir lengri biðtíma. Áður hafði kórónuveirufaraldurinn raskað birgðakeðjunni. Norðurál glímir nú við langa bið eftir varahlutum. „Afgreiðslufrestur af spennum af þessari stærð er yfirleitt mjög langur, oft tvö til þrjú ár,“ segir Gunnar Guðlaugsson forstjóri Norðuráls, „við erum búin að vera að vinna með framleiðendum að stytta þennan tíma eins mikið og hægt er. Við teljum okkur núna geta fengið spenna nægilega snemma til þess að byrja framleiðslu aftur eftir tíu til tólf mánuði.“ Ef það verður bilun hefur Norðurál verið með varaleið. „Nú gerist það hjá okkur að það verða tvær bilanir með mjög stuttu millibili og þar með var varaleiðin farin.“ Forstjóri Norðuráls segir bilunina í álverinu hafa verið áfall fyrir alla en að nú sé horft fram á við. Algerlega ótímabært sé að tala um uppsagnir. Norðurál þurfi á öllu sínu starfsfólki að halda til að undirbúa endurræsingu. Verið er að reyna að gera við biluðu spennana í þeirri von að hægt verði að ræsa kerin fyrr. Gunnar segir starfsfólk hafa staðið sig mjög vel að við að undirbúa kerin svo auðveldara að verða að gangsetja þau. Er eitthvað hægt að segja til um það núna hvort til uppsagna geti komið? „Núna erum við að einbeita okkur að því að undirbúa kerskálann fyrir endurræsingu og það er gríðarlega mikil vinna og við þurfum á öllu okkar starfsfólki að halda við þá vinnu.“ Þannig að það er algerlega ótímabært að tala um einhverjar uppsagnir eða slíkt? „Algjörlega, já.“ Vonast er til að rekstrartryggingar bæti tjónið: „Það er ekki að fullu komið í ljós ennþá og auðvitað hefur það áhrif á það hversu langan tíma það tekur að endurræsa kerin aftur.“ Hvernig er stemningin þarna upp frá núna eða mórallinn? „Ég held að stemningin sé nú býsna góð. Auðvitað var þetta áfall fyrir alla en núna erum við bara að halda áfram og horfa til lands og reyna að klára þetta.“