Melaskóli í Reykjavík var sigurvegari í Svakalegu lestrarkeppninni sem snerist um að lesa sem mest á einum mánuði. Um níutíu grunnskólar tóku þátt. Sigurvegararnir í Melaskóla lásu samtals í yfir níu hundruð tuttugu og níu þúsund mínútur. Samtals lásu krakkarnir í öllum skólunum sem tóku þátt í yfir níu komma sjö milljónir mínútna, eða hátt í sjö þúsund daga. Markmiðið með keppninni er að hvetja börn í fyrsta til sjöunda bekk til að lesa meira. Markmiðinu virðist hafa verið náð en börn sem fréttamaður ræddi við voru sammála um að keppnin hafi aukið lestraráhuga þeirra. Þau hafi lesið meira en venjulega þennan mánuð. „Ég las svo mikið að ég bara byrjaði að lesa ógeðslega hratt,“ segir Bjartur sem er í fjórða bekk í Melaskóla.