„Það er náttúrulega ekki smart að stunda það að stela frá öðrum“

Um þrjátíu prósent landsmanna streyma eða hala niður sjónvarpsefni og kvikmyndum ólöglega. Tap rétthafa hleypur á milljörðum króna. Ríkið verði af tveimur milljörðum í skatttekjur Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði kannaði í fyrra umfang og þróun streymis og niðurhals hér á landi. Tómas Jónsson, stjórnarmaður og lögmaður, segir að tap rétthafa sé tæplega fjórir milljarðar á ári. „Þá í töpuðum áskriftatekjum, töpuðum tekjum af öðru myndefni. Fólk fer ekki í bíó. Og svo segir það sig sjálft að ríkið verður af skatttekjum upp á nærri tvo milljarða.“ Um þriðjungur landsmanna streymir eða halar niður kvikmyndum eða sjónvarpsefni ólöglega samkvæmt könnuninni. Flestir eru í aldurshópnum 18 til 29 ára eða tæplega sextíu prósent. Tómas segir að tölur sem þessar hafi ekki sést áður. „Stærsta vandamálið í dag er svokallaðar ólöglegar streymisveitur. Þær geta heitið IPTV eða Plex, svo eru líka torrent-síður enn þá lifandi. En það er eldra vandamál. Við erum ekki að fá þetta inn á okkar borð en rétthafar verða varir við þessa starfsemi og við höfum kært þetta til lögreglu,“ segir Tómas. „Við höfum líka verið með lögbannsaðgerðir, stundað fræðslu og reynt með öllum ráðum að berjast á móti þessu.“ Lögregla lítið sinnt málaflokknum Tómas segir að kærurnar undanfarin tíu ár séu á annan tug og að örfáar endi fyrir dómi. Lögreglan hafi lítið sinnt þessum málaflokki og beri við skorti á mannafla, fjármunum og sérþekkingu. Hann segir höfundalög úrelt og refsingar vægar. „Það þarf bara hugarfarsbreytingu hjá almenningi. Að fólk átti sig á því að það er í flestum tilvikum að stunda viðskipti við erlend glæmpasamtök sem náttúrulega skila engu til samfélagsins. Allir tapa á þessu,“ segir Tómas og bætir við: „Það er náttúrulega ekki smart að stunda það að stela frá öðrum. Ég trúi því varla að þrjátíu prósent landsmanna stundi það almennt að stela úr búð eða hvar sem það kemst í tækifæri til þess.“ Samkvæmt upplýsingum frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu er verið að uppfæra reglur um höfundarrétt. Áætlað er að frumvarpið verði lagt fram í mars á næsta ári. Í svörum frá ráðuneytinu segir að til greina komi að þyngja refsingar við hugverkastuld. Tekjutap af hugverkastuldi hér á landi er um fjórir milljarðar króna á ári. Stjórnarmaður í Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði segir ólöglegt niðurhal færast í aukana með ári hverju.