Pfizer hafði betur í stríði við Novo Nordisk

Lyfjarisinn Pfizer mun kaupa lyfjaframleiðandann Metsera, sem þróar þyngdarstjórnunarlyf. Pfizer hefur átt í tilboðsstríði um Metsera við Novo Nordisk, danska lyfjaframleiðandann á bak við þyngdarstjórnunarlyfin Ozempic og Wegovy. Metsera tilkynnti á föstudag að samkomulag hefði náðst við Pfizer. Lyfin sem Metsera er að þróa eru enn á tilraunastigi. Gengið verður frá endanlegum samningi þann 13. nóvember næstkomandi. Pfizer mun kaupa Metsera á allt að 86,25 dollara á hlut, að því er fram kemur í tilkynningu Metsera. Það er örlítið hærra en síðasta tilboð Novo Nordisk sem mat Metsera á um 10 milljarða dollara, eða eina billjón og tæpa 300 milljarða íslenskra króna. Með kaupunum reynir Pfizer að hasla sér völl á hinum ört vaxandi markaði þyngdarstjórnunarlyfja, en þar hefur fyrirtækið dregist aftur úr Novo Nordisk. Mál gegn Metsera og Pfizer Verðmat Metsera í samningnum nemur milljörðum dala meira en í samningi sem Pfizer tilkynnti í september síðastliðnum. Þá bauð Pfizer 47,50 dali á hlut í sprotafyrirtækinu. Novo Nordisk gerði þá óumbeðið tilboð í Metsera sem hratt af stað tilboðsstríði við Pfizer. Pfizer höfðaði tvö mál fyrir héraðsdómi Bandaríkjanna í Delaware á hendur Metsera og Novo Nordisk fyrir brot á samningi og samkeppnishamlandi starfshætti. Í síðara málinu sakaði Pfizer Novo Nordisk um að reyna að verja yfirburðastöðu sína á markaði með því að ná yfirráðum yfir og kæfa bandarískan keppinaut áður en hann nyti stuðnings Pfizer. Áhætta að semja við Novo Nordisk Mike Doustdar, forstjóri Novo Nordisk, ræddi tilboðsstríðið á blaðamannafundi í Hvíta húsinu á fimmtudaginn. „Frá og með deginum í dag er tilboð okkar hærra og skilaboð okkar til Pfizer eru að ef þeir vilja kaupa fyrirtækið þá verða þeir að taka upp veskið og bjóða hærra,“ sagði Doustdar. Í tilkynningunni segir Metsera að bandaríska alríkisviðskiptanefndin hefði tilkynnt þeim að samningur við Novo Nordisk myndi fela í sér lagalega áhættu vegna bandarískra samkeppnislaga.