Rapyd krefst þess að gögn verði afhent á ensku

Greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd hefur innleitt nýtt endurkröfukerfi sem felur í sér að gögn vegna endurkrafna sem send eru til fyrirtækisins verða að vera á ensku eða með enskri þýðingu. Breytingarnar taka gildi 1. desember. Í tölvupósti frá Rapyd til söluaðila kemur fram að hingað til hafi endurkröfuteymi Rapyd aðstoðað við að þýða gögn og bætt við útskýringum á ensku. Með nýja kerfinu verði gögnin hins vegar send beint til kortasamtakanna (Visa, MasterCard og Amex) án skoðunar starfsmanns. „Til að tryggja að mótmæli við endurkröfu séu tekin gild þurfa öll gögn að vera á ensku eða fylgja ensk þýðing á upprunalegum gögnum,“ segir í póstinum. „Kortasamtökin telja annars mótmælin ógild og endurkrafan tapast.“ Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslenskri málfræði, vakti athygli á þessari stefnubreytingu Rapyd á Facebook-hópnum Málspjalli og var bersýnilega allt annað en hrifinn. „Það er auðvitað sérkennilegt og ótækt að fyrirtæki sem starfar á Íslandi skuli krefjast þess að fá gögn á ensku,“ skrifaði Eiríkur. „Þetta er þeim mun neyðarlegra sem Rapyd hefur lagt mikla áherslu á að það sé íslenskt fyrirtæki sem eigi „djúpar rætur í íslensku samfélagi“. Það verður ekki betur séð en þessar rætur séu allmjög farnar að trosna og jarðvegurinn kringum þær að blása upp.“