Afríkusambandið hvetur til alþjóðlegra aðgerða í Malí

Mahmoud Ali Youssof, forseti framkvæmdastjórnar Afríkusambandsins, lýsti yfir þungum áhyggjum af ástandinu í Malí á sunnudaginn og hvatti alþjóðasamfélagið til að grípa til aðgerða til stuðnings landinu. „Youssof lýsir yfir þungum áhyggjum af skyndilegri versnun öryggisástandsins í Malí, þar sem hryðjuverkahópar hafa lokað flutningaleiðum, raskað aðgengi að nauðsynjavörum og gert mannúðarkreppuna langtum verri fyrir almenna borgara,“ stóð í yfirlýsingu sem Afríkusambandið birti á samfélagsmiðlinum X. „Forseti framkvæmdastjórnarinnar hvetur til öflugra, samstilltra og samfastra alþjóðlegra viðbragðsaðgerða til að berjast gegn hryðjuverkum og ofbeldisfullri öfgastefnu á Sahelbeltinu.“ Frá því í september hafa hryðjuverkasamtökin Jama'at Nasr al-Islam wal-Muslimin (nafnið gæti útlagst á íslensku sem „Stuðningshópur íslams og múslima“), eða JNIM, lokað á flutninga eldsneytis til malísku höfuðborgarinnar Bamakó, sem hefur valdið miklum truflunum á efnahag borgarinnar. Ýmis ríki hafa ráðlagt ríkisborgurum sínum að hafa sig burt frá Malí og flutningafyrirtækið MSC tilkynnti nýverið að það hygðist gera hlé á starfsemi sinni í landinu vegna tíðra árása á vegum úti. Sama dag og ASB gaf út tilkynninguna tilkynntu malískir embættismenn að hryðjuverkamenn hefðu rænt ungri konu í norðurhluta landsins og tekið hana af lífi á almannafæri. Konan, að nafni Mariam Cissé, var áhrifavaldur á samfélagsmiðlinum TikTok með um 90.000 fylgjendur. Hryðjuverkamennirnir höfðu sakað hana um að veita malíska hernum upplýsingar um ferðir þeirra. Í tilkynningunni sagðist Afríkusambandið reiðubúið til að „styðja Malí, og öll Sahel-ríkin, á þessum afar viðkvæma kafla“.