Þingmenn nálgast samkomulag til að opna alríkisstofnanir á ný

Þingmenn á öldungadeild Bandaríkjaþings hafa gert samkomulag sem þeir vonast til að dugi til að opna alríkisstofnanir Bandaríkjanna á ný. Alríkisstofnanir hafa verið lokaðar frá því í byrjun október vegna ágreinings á þingi um fjárlög. Þetta er lengsta lokun alríkisstofnana í sögu Bandaríkjanna. Samkvæmt samkomulaginu verða alríkisstofnanir fjármagnaðar þar til í lok janúar, matarstimplar ríkisstjórnarinnar verða fjármagnaðir á ný og hætt verður við þúsundir uppsagna ríkisstarfsmanna. Þá verður boðað til atkvæðagreiðslu á þinginu um framlengingu á skattaafsláttum sem eiga að draga úr heilbrigðiskostnaði. „Þetta samkomulag tryggir atkvæðagreiðslu um að framlengja skattaafslætti samkvæmt lögunum um kostnaðarvæna heilbrigðisþjónustu, sem Repúblikanar vildu ekki gera,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn Tim Kaine. Kaine sagði jafnframt að samkomulagið myndi koma í veg fyrir tilefnislausar uppsagnir alríkisstarfsfólks, tryggja endurráðningu þeirra sem hefðu verið reknir að ósekju meðan alríkisstofnunum var lokað og tryggja að starfsfólki sem var gert að mæta áfram í vinnuna meðan á lokununum stóð verði greitt fyrir ólaunaða vinnu. Sumir Demókratar á þingi eru á móti samkomulaginu, þar á meðal þingflokksforinginn Chuck Schumer. „Ég get ekki með góðu móti stutt þetta samkomulag sem leysir ekki úr kreppunni í heilbrigðismálum,“ sagði hann. „Þessi barátta mun og skal halda áfram.“ Öldungadeildin er byrjuð að kjósa um tillöguna. Ef hún er samþykkt verður tillagan send til fulltrúadeildarinnar og síðan til undirskriftar Bandaríkjaforseta.