Einræðisherra lýstur þjóðhetja

Ríkisstjórn Indónesíu sæmdi fyrrum einræðisherra landsins, Suharto heitinn, titli þjóðhetju í árlegri athöfn á mánudaginn. Núverandi forseti landsins, Prabowo Subianto, sem er fyrrverandi tengdasonur Suhartos, fór fyrir athöfninni og afhenti syni og dóttur Suhartos viðurkenninguna. „Suharto hershöfðingi bar af öðrum allt frá sjálfstæði landsins sem framúrskarandi maður frá Mið-Jövu og hetja úr sjálfstæðisbaráttunni,“ sagði kynnir við athöfnina. Suharto var forseti Indónesíu frá 1967 til 1998. Hann hafði áður verið leiðtogi indónesíska hersins og stýrði á árunum 1965 til 1966 fjöldamorðum gegn meintum kommúnískum uppreisnarmönnum. Talið er að eitthvað á bilinu 500.000 upp í eina milljón manna hafi verið drepnir á þessum tíma. Suharto steypti síðan fyrsta forseta landsins, Sukarno, af stóli árið 1967. Hann var við völd í rúm þrjátíu ár, sem var lengst af mikið hagvaxtarskeið í landinu. Indónesía kom hins vegar illa út úr Asíukreppunni árið 1998, sem leiddi til mótmælaöldu sem þvingaði Suharto til afsagnar. Hann lést árið 2008. Á valdatíma Suhartos réðst Indónesía jafnframt inn í Austur-Tímor árið 1975. Á meðan á hernámi Indónesa í Austur-Tímor stóð voru á bilinu 90.800 til 202.600 manns drepnir. Austur-Tímor fékk ekki sjálfstæði fyrr en eftir að Suharto hrökklaðist frá völdum. Samtökin Transparency International birtu árið 2004 lista yfir þá sem þau töldu spilltustu leiðtoga nútímasögunnar. Suharto var númer eitt á listanum og var sagður hafa dregið sér andvirði allt að 35 milljarða úr ríkissjóði á valdatíma sínum. Í síðustu viku sendi 500 manna hópur aðgerðasinna, embættismanna og fræðimanna opið bréf til stjórnvalda þar sem þau sögðu það svik gegn fórnarlömbum Suhartos og gegn lýðræðislegum gildum að kalla Suharto þjóðhetju. Þá var hugmyndin sögð hættuleg afbökun á sögunni. Skrifstofa Prabowo Subianto svaraði því að forsetinn mætti lýsa hvern sem honum sýndist þjóðhetju. Indónesíski ráðherrann Prasetyo Hadi blés á gagnrýnina. „Svona heiðrum við forvera okkar, sérstaklega leiðtoga okkar, sem hafa án efa lyft grettistaki fyrir þjóðina og landið.“