Segja framúrakstursreinar auka umferðaröryggi

Lagt er til að sérstakar framúrakstursakreinar verði lagðar á nokkrum stöðum á Hringveginum á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Slíkt gæti dregið úr slysahættu og liðkað fyrir umferð. Verkfræðingur segir þetta ódýrara en að leggja tvo plús einn veg. Framúrakstursakreinar eru breikkun á vegi, þannig að á ákveðnum kafla á til dæmis tveggja akreina vegi er bætt við aukaakrein þannig að ekki þurfi að fara yfir á gagnstæða akrein til að fara fram úr. Rannsóknarverkefni á vegum Vegagerðarinnar um slíkar akreinar hefur staðið yfir á Hringveginum á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Gera framúrakstur öruggari Bjarni Viðarsson verkfræðingur, einn þeirra sem standa að verkefninu, segir slíkar akreinar ekkert frekar bundnar við brekkur eða slíkar aðstæður þar sem hægist á umferð og kalli oft á framúrakstur. „Þetta geta líka verið beinir kaflar, sérstaklega kaflar þar sem sjónlengdir eru ekki miklar og aðstæður til framúraksturs vegna umferðar á móti og sjónlengdir til hennar eru takmarkaðar.“ Sérstakir kaflar til framúraksturs, þar sem raðir myndast á Hringveginum, gætu komið í veg fyrir slys og liðkað fyrir umferð, að mati starfshóps á vegum Vegagerðarinnar. Þeir væru ódýrari leið en að byggja 2+1-veg. Þessi lausn út frá kostnaði væri kannski millistig milli þess að gera 2+1-veg, eins og á Kjalarnesi þar sem er fjögurra akreina snið og alltaf ein stök akrein og tvær samhliða þar sem hægt er að taka fram úr. „Þannig að þetta er millistigið í kostnaði og gæðum. Þetta er kannski kílómetra langur kafli þar sem þú ert með tvær akreinar og getur tekið fram úr án þess að það sé um að ræða sama kostnað og í 2+1-veginum.“ Forgangsraðað út frá öryggi Á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar eru erfiðustu kaflarnir að sögn Bjarna næst þéttbýlinu, á Kjalarnesi og næst Akureyri og þar væri væntanlega farið strax í 2+1-veg, en síðan eru kaflar í Borgarfirði og Öxnadalsheiði. Þörfin fyrir aðgerðir kemur til vegna þess hve oft bílar lenda í röð og vegna slysahættu á fjallvegum. Þessar tvær forsendur eru lagðar til grundvallar.Þ Þessir vegarkaflar á Hringveginum eru að mati rannsóknarhópsins í forgangi út frá umferðaröryggi: Vestfjarðavegur - Holtavörðuheiði, Holtavörðuheiði - Innstrandavegur og Öxnadalsheiði - Ólafsfjarðarvegur. Og síðan út frá þjónustustigi, það er hversu oft myndast raðir, vegarkaflar Hringvegarins Borgarnes - Borgarfjarðarbraut, Borgarfjarðarbraut - Vestfjarðarvegur, Innstrandavegur - Hvammstangavegur, síðan Hvammstangavegur að Blönduósi og loks Hringvegurinn frá Húnaveri að Varmahlíð. Með aðgerð eins og þessari ætti að draga úr slysahættu. „Henni væri ætlað að draga úr slysahættu vegna framúraksturs, já.“