Staðan í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins er óbreytt, að sögn Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara. Ekkert hefur verið fundað í deilunni síðan hlé var gert á viðræðum í síðustu viku en Ástráður segist ætla að boða til fundar á næstu dögum. Hann segir óformlegar viðræður eiga sér stað milli deiluaðila. Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, sagði við fréttastofu í síðustu viku að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort flugumferðarstjórar boði aftur til verkfallsaðgerða. Þeir aflýstu aðgerðunum í október eftir að betri gangur komst í viðræðurnar. Félag íslenskra flugumferðarstjóra hélt félagsfund í síðustu viku og Arnar sagði hljóðið í þeim þungt, allir séu þreyttir á ástandinu. Flugumferðarstjórar hafa verið samningslausir síðan um áramót.