Íranska utanríkisráðuneytið vísaði í dag á bug fregnum frá því fyrir helgi að Íranar hefðu lagt á ráðin um að myrða sendiherra Ísraels í Mexíkó. Þær byggðu á yfirlýsingum ísraelska utanríkisráðuneytisins og ummælum ónefnds bandarísks embættismanns. Talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins sagði í dag að ásakanirnar væru fjarstæðukenndar og út í hött. Hann sagði tilgang þeirra vera þann einan að grafa undan vinsamlegum samskiptum Írans við önnur ríki. Reuter hafði eftir bandarískum embættismanni á föstudag að komið hefði verið í veg fyrir samsæri íranska lýðveldisvarðarins. Mexíkósk stjórnvöld sögðust ekkert vita um málið. Fjölmenni í Mexíkóborg á allrasálnamessu á dögunum.AP / Claudia Rosel