„Það er erfitt að finna upp hjólið, það tók svo langan tíma“ segir Fríða Ísberg rithöfundur í Kiljunni á RÚV um nýju skáldsöguna sína Huldukonuna. Bókin er nokkuð frábrugðin hennar fyrstu sem kom út árið 2021. „Ég var hérna síðast hjá þér þegar ég var gengin 20 vikur á leið með dóttur mína, fyrsta barnið mitt,“ segir hún við Egil Helgason. „Mér leið illa, ég var nýkomin úr nýrnasteinaaðgerð. Síðan bara fylgi ég þeirri bók svolítið lengi eftir í útlöndum. Þá var alltaf verið að krefja mann um þessi svör; hvaða hlutverki bókmenntir gegna í samfélaginu okkar og stöðu höfundarins og allt þetta.“ Hræðilegt að þurfa að hljóma gáfulega „Í Merkingu er ég með pólitískar hugleiðingar. Þetta er pólitískt verk í rauninni. Það kemur bara þessi mjög náttúrlega tilhneiging og þörf til að fara alveg í hina áttina. Kanna söguna og kannski tilgangsleysi bókmennta. Það er fegurð í því að það séu ekki þessi praktísku gildi sem munu lækna heiminn með bókinni.“ Hún hafi oft verið látin sitja fyrir svörum á bókmenntahátíðum og segist stundum þurfa að hljóma gáfulega sem sé „hræðilegt fyrir manneskju og mig, sem er það alls ekki“. Hún segist einnig hafa verið í rosalegri brjóstaþoku í tvö ár eftir að dóttir hennar fæddist og því hafi verið mjög erfitt að ná utan um ákveðnar hugsanir. „Ég var bara hreinlega týnd í þokunni. Þá þurfti ég líka bara ævintýri. Ég þurfti sögu og að hafa gaman.“ Þá hafi hún fengið hugmyndina að stíga inn á svið huldufólks sem hófst í raun sem prakkarastrik. Skilja ekki hvers vegna gæðablóðið er ekki gengið út Árið er 1984 þegar meginsagan í Huldukonunni gerist. „Sigvaldi er fyrsti drengurinn sem fæðist í Lohr-fjölskylduna í fjórar kynslóðir. Hann er gullmyndarlegur, ótrúlega stór og sterklegur og klár og greiðvikinn og góður maður.“ „Konurnar í fjölskyldunni, sem eru í raun sögumenn þessarar bókar, skilja ekki af hverju hann hefur aldrei átt kærustu eða verið við kvenmann kenndur. Þær hafa gert allt sem þær geta til að koma honum á séns en það gengur ekki neitt.“ Sagan gerist á sunnanverðum Vestfjörðum og þegar Sigvaldi, þessi myndarlegi maður, er rétt skriðinn upp úr tvítugu ákveður hann að flytja í Eyðivík og biður fjölskylduna um að fá að kaupa ættaróðalið. Hann gerist einbúi í þessu þorpi sem hafði dáið út upp vegna vélvæðingarinnar í byrjun 20. aldar. „Í fyrsta kaflanum er hann búinn að búa þarna í næstum því 10 ár einn og mætir á dyraþrepi móður sinnar með mánaðargamla stúlku sem er dóttir hans og neitar að segja hver barnsmóðirin er.“ Konurnar í fjölskyldunni þurfa að komast að því hver huldukonan er, sem verður að viðurnefni barnsmóðurinnar í þorpinu, og hefja sína eigin rannsókn. Konurnar kasta út netum í leit að huldukonunni og átta sig fljótt á því að til þess að velta öllum steinum þurfa þær að fara í gegnum fjölskyldusöguna. Lesendur fá því innlit í nokkrar kynslóðir kvenna allt frá aldamótunum 1900 og til 1984. „Þetta verður svolítið klassísk fjölskyldusaga, í leit að vísbendingum.“ Erfitt að finna upp hjólið Þegar Egill spyr hvort Fríðu hafi þótt skemmtilegt að skrifa þessa bók svarar hún að það hafi verið grettistak. „En það sem gerði það mögulegt var að það var gaman að skrifa þegar ég náði í gegn.“ „Ég var rosalega lengi, því það er erfitt að skrifa um huldufólk og þjóðsagnaarfinn í kringum það. Það er búið að gera allt. Þetta er svo niðurnjörvað efni. Ég ætla ekki að segja mikið en það eru draumar í fjölskyldunni sem benda til þess að það er kannski eitthvað á sveimi.“ „Það er erfitt að finna upp hjólið, það tók svo langan tíma. En um leið og hjólið var komið, þá rúllaði þetta af stað.“ Við veljum alltaf þægindin fram yfir óþægindin Í Huldukonunni er Fríða að skoða ástarsögur og sveitarómansinn. „Mig langaði bara að skoða hvað myndi gerast ef ég myndi skoða þetta með mína verkfæratösku.“ Undirliggjandi er líka löngun Fríðu að skoða þekkingu. „Ef það er einhver hugsun í þessu verki þá er það kannski það að við förum í gegnum þessa 20. öld, þá verður vélvæðingin til þess að byggðin leggst af, þessi Eyðivík,“ segir Fríða. Verbúðin hvarf og bæirnir lögðust í eyði. „Síðan hægt og rólega fer maður að skoða, hvað verður eftir? Hvaða ferli gleymast sem voru í þúsund ár iðkuð af því að við erum allt í einu komin með meiri þægindi sem leysa þau af?“ Þetta sé hin ljúfsára nostalgía sem Íslendingar eiga, þetta sé strengurinn við fortíðina. „Síðan er það það sem er okkur öllum hugleikið akkúrat núna, er nákvæmlega þessi breyting. Við erum að upplifa svo brjálaða þægindabreytingu að öll ferlin okkar eru að fara gleymast af því að það er gervigreind sem er að fara að gera þetta fyrir okkur. Það þýðir ekki að afneita því.“ Hún segir lítið þýða að vonast til þess að einhverjar hömlur verði settar á gervigreindina, það sé ekki að fara að gerast. „Við erum alltaf að fara velja þægindin fram yfir óþægindin, fram yfir vinnu. Núna er risastórt stökk í því og það eina sem við getum gert er að finna siðferðilega rétta leið til þess.“ Þetta sé það sem henni hafi verið hugleikið við skrif þessarar bókar því margt var skilið eftir á 20. öld með tilkomu vélanna. „En síðan er Sigvaldi, aðalkarakterinn minn. Hann er alltaf þar, hann vill alltaf sjá hvernig hlutirnir verða til og vill sjá allt ferlið.“ Eftir að hafa skrifað pólitíska bók og þurft að hljóma gáfulega í miðri brjóstaþoku segist Fríða Ísberg hafa þurft að snúa sér að léttari efnum. Hana langaði í ævintýri og sögu og skrifaði því Huldukonuna sem þó þurfti grettistak. Rætt var við Fríðu Ísberg í Kiljunni á RÚV. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.