60 milljónir til að auka þátttöku fatlaðs fólks í íþróttum

Félagsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og barnamálaráðherra ætla að veita 60 milljónum króna til að auka þátttöku og virkni fatlaðs fólks í íþróttastarfi, einkum fatlaðra barna og ungmenna. Inga Sæland, Alma Möller og Guðmundur Ingi Kristinsson skrifuðu undir viljayfirlýsingu þessa efnis á Allir með-leikunum sem haldnir voru í Laugardalshöll um helgina. Allir með-leikarnir og samnefnt átak ganga út á að að fjölga tækifærum fyrir börn með fatlanir í íþróttum. Verkefnið er liður í að ná markmiðum 30. greinar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að því er segir í tilkynningu Stjórnarráðsins . Rúmlega 100 börn tóku þátt í leikunum og spreyttu sig í fjölda íþróttagreina, eins og sjá má á myndunum hér að neðan.