Hlutabréfaverð í Alvotech hækkaði um tólf prósent í morgun. Fyrr um daginn hafði fyrirtækið tilkynnt um sigur í dómsmáli í Bretlandi. Verð hlutabréfa í fyrirtækinu hrundi fyrir viku eftir að tilkynnt var um að fyrirtækið fengi ekki að svo stöddu markaðsleyfi í Bandaríkjunum fyrir nýtt lyf. Þá lækkaði hlutabréfaverð um 28 prósent á einum degi. Þegar leið á vikuna hækkaði hlutabréfaverð í Alvotech nokkuð en var langt undir því sem var við upphaf viðskipta á mánudaginn. Þessi vika byrjaði betur fyrir hluthafa Alvotech en sú síðasta. Hækkunin vinnur til baka um hátt í helming af falli hlutabréfa síðasta mánudag. Alvotech tilkynnti í morgun að dómstóll í Bretlandi hafi dæmt fyrirtækinu í vil. Regeneron Pharmaceuticals og Bayer-lyfjafyrirtækin kröfðust þess að lögbann yrði sett á framleiðslu birgða af AVT06, hliðstæðulyfi Alvotechs við Eylea-lyf fyrirtækjanna. Þar var tekist á um það hvort Alvotech mætti hefja framleiðslu lyfsins hálfu ári áður en vernd lyfja samkvæmt einkaleyfi rennur út.