Langmest ánægja með störf Kristrúnar

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, er eini flokksformaðurinn á þingi sem meirihluta landsmanna finnst hafa staðið sig vel á þessu kjörtímabili. Meirihluta finnst allir formenn stjórnarandstöðuflokka hafa staðið sig illa. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun Maskínu. Fólk var spurt hversu vel eða illa því þætti formenn flokkanna hafa staðið sig. Kristrún er bæði sá formaður sem flestum finnst hafa staðið sig vel og fæstum finnst hafa staðið sig illa. 60 prósentum svarenda finnst Kristrún hafa staðið sig vel. Næst kemur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar. 46 prósentum finnst hún hafa staðið sig vel. Langt er í næstu flokksformenn. 24 prósent lýsa ánægju með störf Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra og formanns Flokks fólksins. 21 prósent segja Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, hafa staðið sig vel og 14 prósent segja Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann Sjálfstæðisflokksins, hafa staðið sig vel. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, rekur lestina. 12 prósent segja hann hafa staðið sig vel. Stjórnarandstöðuformenn standa ekki aðeins frammi fyrir því að fáum þyki þeir hafa staðið sig vel heldur líka því að flestir telja þá hafa staðið sig illa. Sigmundur Davíð og Guðrún hafa staðið sig verst að mati svarenda. 61 prósent segja þau hafa staðið sig illa. Sigurður Ingi stendur sig litlu betur, 58 prósent segja hann hafa staðið sig illa. Af formönnum stjórnarflokkanna ríkir mest óánægja með störf Ingu Sæland, 47 prósent segja hana hafa staðið sig illa. Næst kemur Þorgerður Katrín sem 33 prósent segja hafa staðið sig illa. Fæstir segja Kristrúnu Frostadóttur hafa staðið sig illa, 22 prósent. Könnunin var gerð 8. til 15. október og svöruðu 1.232 spurningunni.