Stjórnmálamenn sammála í gagnrýni á BBC

Fréttastjóri BBC, sem sagði af sér í gær vegna umfjöllunar miðilsins um Donald Trump, segir breska ríkisútvarpið ekki vera hlutdrægan miðil. Hún og útvarpsstjórinn sögðu af sér vegna hneykslisins - eitthvað sem Trump sjálfur fagnar. Í fréttaskýringaþættinum Panorama á BBC, hafði verið átt við myndband af ræðu Trumps frá í janúar 2021, þegar stuðningsmenn hans réðust inn í þinghús Bandaríkjanna. Þar virtist Trump hvetja stuðningsmenn sína til þess að marsera að þinghúsinu annars vegar og berjast við hlið sér hins vegar. Í reynd liðu þó 50 mínútur milli þessara tveggja talpunkta í ræðu hans. Breska blaðið Telegraph svipti hulunni af þessu nýverið og síðan þá hafa fréttastjóri BBC og útvarpsstjóri sagt af sér. Þar er þó meira sagt koma til; til dæmis sú ákvörðun BBC að skrúfa ekki fyrir útsendingu frá Glastonbury-tónlistarhátíðinni í sumar, þegar einn listamannanna hvatti opinberlega til þess að ísraelskir hermenn yrðu drepnir, og umfjöllun um hernað Ísraela á Gaza, sem margir segja að hafi verið Ísraelum meira í vil. Gertt er ráð fyrir að stjórnarformaður BBC biðjist afsökunar vegna hneykslisins síðar í dag. Tim Davie útvarpsstjóri segir að mistök hafi verið gerð, sem hann axli ábyrgð á. Deborah Turness fréttastjóri segir að enga stofnanavædda hlutdrægni sé að finna innan veggja BBC. Þau sögðu bæði af sér í gær, of seint segja sumir gagnrýnendur. Stjórnmálamenn úr nær öllum flokkum í Bretlandi hafa lýst yfir óánægju sinni. Kemi Badenoch, leiðtogi Íhaldsflokksins, segir að nýir stjórnendur BBC verði að svara fyrir röð mistaka að undanförnu og gera viðeigandi breytingar. Í svipaðan streng tekur leiðtogi Frjálslyndra demókrata og Nigel Farage, leiðtogi Umbótaflokksins, segir að þetta sé síðasta tækifæri miðilsins til þess að gera breytingar, annars fjölgi þeim skattgreiðendum sem kjósa að greiða ekki útvarpsgjaldið. Þjónustusamningur breska ríkisins við BBC verður endurnýjaður árið 2027 og víst þykir að þetta hneyksli hafi áhrif á viðræður þar um.