„Þriðjungur mannkyns er börn og yfirleitt er fyrirfram ákveðið hvernig leiksvæði þeirra á að vera“ segir Sigríður Sunna Reynisdóttir, listrænn stjórnandi hönnunarteymisins Þykjó. Verkefni Þykjó eru fjölmörg. Teymið veitir börnum hlýtt og skapandi umhverfi í almannarými og sækir hugmyndir oft til barnanna sjálfra. Nýverið var opnað leiksvæði á Keflavíkurflugvelli fyrir yngstu ferðalangana. Þar má sjá litríkt ævintýralandslag og öll form eru mjúk og ávöl. „Það er skrýtið hvað fullorðinsheimurinn er grár og kassalaga og það finnst okkur leiðinlegt. Við viljum gleðja fólk“ segir Embla Vigfúsdóttir leikjahönnuður. „Skjáir eru góðir fyrir sitt leyti, eins og þegar börnin þurfa að sitja kyrr í vélinni, en það er svo gott að geta hreyft sig vel og duglega áður en barn fer í flug“ segir Embla.