Íslendingar losa sig við hátt í tíu tonn af fötum á dag og aðeins fimm til tíu prósent komast í endurnotkun innanlands. Mikilvægasta skrefið í að draga úr sóun er að draga úr neyslu, innkaupin ráðast að miklu leyti af löngun en ekki þörfum í dag. 90 til 95 prósent fata og textíls eru send úr landi í stórar flokkunarstöðvar í Evrópu. Þar er lítill hluti sem fer í endurvinnslu og um helmingurinn fer í sorpbrennslu. „Vandamálið liggur í að við getum kannski ekki endilega flokkað, eða endurunnið okkur út úr þessu vandamáli því magnið er bara það mikið,“ segir Birgitta Stefánsdóttir, sérfræðingur í hringrás hjá Umhverfis- og orkustofnun. Mikilvægt er að flokka og koma dóti í endurvinnslu. „En þegar magnið er svona mikið þá er eftirspurnin miklu minni en framboðið, það er kannski lykillinn að þessu.“ Lausnin liggur í að fólk kaupi minna Á heimasíðunni Saman gegn sóun má sjá ýmsar upplýsingar og ráð um neyslu og flokkun fata. Þar er bent á mikinn kostnað sem fylgi því að safna, flytja og meðhöndla úrganginn. Sveitarfélög hafa frá 2023 borið ábyrgð á því en það hefur reynst mörgum þeirra íþyngjandi og kostnaðarsamt. „Í rauninni er það það sem við viljum vekja athygli á, það er að lausnin liggur í að fólk kaupi minna og að neyslan sé stýrð meira eftir þörfum heldur en löngun. Það er í raun auðveldasta leiðin til að draga úr skaðlegum umhverfisáhrifum og líka kostnaði, það er bara að draga úr innkaupum.“ Kaupa eftir þörfum ekki löngunum Tilboðsdagar eru auglýstir í röðum í nóvembermánuði og á morgun býður fjöldi verslana tilboð og afslætti undir yfirskriftinni dagur einhleypra. „Það sem við erum að leggja áherslu á er að kaupa minna en líka bara að kaupa notað, nota skiptimarkaði í vinnunni. Hringrásarverslun á Íslandi hefur aukist gríðarlega.“ Neytendur þurfi líka að hugsa um hvað þeir séu að versla. „Upp á gæðin en líka kannski ekki vera að bæta einhverju við í körfuna til að fá ókeypis sendingakostnað.“ Markaðsfræðin og auglýsingarnar séu settar upp til að ýta undir að neytendur kaupi meira „Þannig að kannski bara vera með varann á og hugsa tvisvar áður en við göngum frá kaupunum. Frekar að ígrunda hvað við erum að gera og kaupa eitthvað sem við virkilega teljum að við þurfum.“