Tengsl námsins við atvinnulífið mikilvægt

„Þetta er ofboðsleg viðurkenning fyrir það mikla starf sem er unnið í skólanum. Þetta vekur hjá okkur stolt og kraftinn til að gera enn betur. Þetta skiptir miklu máli fyrir starfsfólkið okkar, nemendur og bara Eyjasamfélagið allt,” segir Helga Kristín Kolbeins, skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum. Skólinn fékk Íslensku menntaverðlaunin 2025 fyrir framúrskarandi starf, verk eða framlag til iðn- eða verkmenntunar. Skólinn þykir á undanförnum árum hafa markað sér sterka stöðu í kennslu málm- og vélstjórnargreina. Tenging námsins við atvinnulífið í Vestmannaeyjum er mjög mikil. „Það er mjög mikilvægt að hafa tenginguna við atvinnulífið. Þetta er 4.500 manna eyja og margir sem þurfa að hafa marga hatta. Við sjáum það alveg að ef við værum ekki með þetta kröftuga atvinnulíf sem tæki svona vel á móti nemendum okkar og hlustaði svona vel á okkur þá værum við ekki með þetta öfluga nám sem við erum með,” segir Helga. „Sérstaða námsins hér er myndi ég segja fjölbreytnin miðað við staðsetningu. Hér erum við með 95% nemenda sem koma úr grunnskólanum og upp,” segir Thelma Björk Gísladóttir, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskólans í Vestmannaeyjum. Hún segir nemendur vera á breiðu aldursbili, sá yngsti fæddur 2009 og sá elsti árið 1964. „Svo eru það tengslin við atvinnulífið. Nemendur fá að koma úr vinnunni og í tíma og atvinnurekendur eru mjög duglegir að vera í þeirri vinnu með okkur. Svo erum við líka að fá kennara úr atvinnulífinu sem að er líka ekki síður dýrmætt,” segir Thelma. „Að hafa allt þetta gerir okkur kleift að vera sterkt og gott samfélag þannig skólinn hér er mjög mikilvægur til þess að við getum gefið atvinnulífinu tilvonandi atvinnumenn og konur.” „Sérstaðan er fyrst og fremst nálgunin, hvernig það er nálgast námið sjálft. Láta nemendur sjálfa uppgötva hlutina. Hvernig þetta er. Ekki mata þá alveg, þetta er svona og svona og á að vera svona. Ekki negla sig alveg í þetta,” segir Gísli Sigurður Eiríksson, kennari við málm- og véltæknibraut FÍV. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hlaut Íslensku menntaverðlaunin fyrir að hafa markað sér sterka stöðu í kennslu málm- og vélstjórnargreina. Hægt er að horfa á umfjöllun um námið í spilaranum hér fyrir ofan og hér er hægt að horfa á Íslensku menntaverðlaunin.