Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, segir dvöl sína í fangelsi í París vera martröð. Hann afplánar fimm ára dóm fyrir spillingu, fyrir að hafa lagt á ráðin um að þiggja fé frá Muammar heitnum Gaddafi, fyrrverandi einræðisherra Líbíu, til að nota í kosningabaráttu sína. „Þetta er erfitt, mjög erfitt, fyrir hvaða fanga sem er,“ sagði Sarkozy í gegnum fjarfundarbúnað fyrir dómstóli í dag. Saksóknarar í spillingarmáli hans vilja fá hann lausan, til að betur megi rétta yfir honum á æðra dómstigi. Sarkozy hefur alltaf lýst yfir sakleysi sínu. Carla Bruni, ofurfyrirsæta og eiginkona hans, var viðstödd meðferð málsins í dag og studdi þar eiginmann sinn, rétt eins og 21. október þegar hún fylgdi eiginmanni sínum áleiðis í lögreglubíl við heimili þeirra í París, þaðan sem hann var fluttur í fangelsi. Frönsk lög heimila aðeins að sakborningar séu hafðir bakvið lás og slá ef ómögulegt er annars að vernda sönnunargögn í málinu og koma í veg fyrir að sakborningur brjóti af sér aftur. Takist að sanna að svo sé ekki í tilfelli Sarkozys eru líkur á að honum verði sleppt úr fangelsi strax í dag. Hann á þó enn yfir höfði sér dóm fyrir spillingu og það á æðra dómstigi. Líklega yrði Sarkozy þó undir eftirliti, til dæmis með ökklabandi, verði honum sleppt. Sarkozy hefur verið í fangelsi í tvær vikur og tveir öryggisverðir eru hafðir í klefa við hliðina á hans, til þess að tryggja öryggi hans. Hann er fyrsti fyrrverandi leiðtogi Evrópusambandsríkis til þess að vera dæmdur og settur í fangelsi. Á samfélagsmiðlareikningum hans voru nýlega birtar myndir af aðdáendabréfum sem Sarkozy er sagður hafa fengið í fangelsi. Þar mátti jafnvel sjá úrklippubækur og súkkulaðistykki. Stuðningsmenn forsetans fyrrverandi fjölmenntu að heimili Sarkozys þegar hann var fluttur í fangelsi og sungu þjóðsöng Frakka honum til heiðurs.