Sér engin rök fyrir því að þjóðin sé á röngum tíma

Á þriðja þúsund hafa skrifað undir undirskriftarlista um að seinka klukkunni. Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og svefnsérfræðingur, er ábyrgðarmaður undirskriftarlistans og segir morgunbirtu mikilvæga fyrir heilsu og líðan fólks. Hún segir Íslendinga vakna á undan náttúrulegri birtu og það seinki líkamsklukkunni, fjölgi dimmum morgnum og hafi áhrif á svefn, orku og líðan, sérstaklega hjá börnum og ungmennum. Klukkunni var breytt árið 1968 þegar ákveðið var að festa Ísland á sumartíma. Rannsóknir í dag sýna aftur á móti að líkamsklukkan lagi sig að sólargangi. Það sé misjafnt eftir landshlutum hversu mikil skekkjan sé. Hún sé um 50 mínútur á austanverðu landinu en 90 mínútur á suðvestanverðu landinu. „Þannig það þýðir að þegar við vöknuðum í morgun klukkan 7:00 þá er líkamsklukkan í rauninni 5:30 og heilinn segir okkur: Það er ennþá nótt,“ segir Erla í Morgunútvarpinu á Rás 2. Ungmennin fái raunverulega meiri svefn Fái fólk meiri birtu á morgnana eigi það einnig auðveldara með að sofna fyrr á kvöldin. Verði klukkunni seinkað um eina klukkustund myndu landsmenn vakna í birtu sex vikum lengur á ári. „Auðvitað erum við ekki að fjölga birtustundum á sólarhring en það er spurning um hvenær við fáum birtuna. Það sem er mikilvægast fyrir líkamsklukkuna okkar er morgunbirta. Hún stillir líkamsklukkuna.“ Erla segir marga telja að það hefði lítil áhrif á svefnhegðun ungs fólks að breyta klukkunni. Það séu svipuð rök og hún hafi heyrt í baráttu sinni um að seinka skóladegi unglinga. „Þá sagði fólk: Hvaða máli heldurðu að það skipti, þau fara bara seinna að sofa. Við erum aftur á móti bara með mjög góð vísindaleg gögn sem sýna að svo er ekki. Þau raunverulega sofa lengur ef þau mæta seinna í skólann og það er það sama með þetta.“ Svefnsérfræðingur kveðst vongóður um að ný ríkisstjórn beiti sér fyrir því að seinka klukkunni um klukkustund. Morgunbirtan sé mikilvægust fyrir líkamsklukku fólks. Grænlendingar hafi lært hraðar af mistökunum Starfshópur heilbrigðisráðherra lagði til árið 2018 að klukkunni yrði breytt, svo að fólk gæti farið klukkustund síðar á fætur og birtustundum á morgnana myndi fjölga í svartasta skammdeginu. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar tveimur árum síðar varð aftur á móti að klukkan skyldi vera óbreytt, þar sem ókostirnir þóttu vega þyngra en kostirnir. Erla sat sjálf í starfshópnum á sínum tíma og segist bjartsýn á að umræðan taki við sér og að ný ríkisstjórn beiti sér í málinu. „Ég er bjartsýn fyrir því að við náum að gera þetta og ég sé bara engin rök fyrir því að vera á röngum tíma.“ Grænlendingar hafi fest sína klukku á sumartíma árið 2022, en óánægja hafi verið mikil, einkum meðal foreldra sem finni fyrir neikvæðri breytingu á svefni barna sinna. Málið sé því aftur komið á grænlenska þingið, þar sem til standi að snúa breytingunni við. „Þannig eitthvað sem hefur tekið okkur 60 ár að leiðrétta tók þau tvö ár að leiðrétta.“