Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, segir Sigríði Björk Guðjónsdóttur hafa tekið rétta ákvörðun með því að segja af sér embætti ríkislögreglustjóra. Ákvörðunin hafi alfarið verið hennar. Sigríður Björk tilkynnti um afsögn sína í tilkynningu í morgun. Tvær vikur eru síðan RÚV birti frétt sína um að ríkislögreglustjóri hefði keypt þjónustu af ráðgjafafyrirtækinu Intru-ráðgjöf fyrir 160 milljónir á fimm árum. Hart var deilt á störf Sigríðar og fjármálastjórn embættisins eftir að fréttin var flutt. „Ég hef verið býsna skýr hvað mér finnst um alvarleikastigið á málinu. Hún kom til mín og upplýsti mig um það að hún ætlaði að segja af sér embætti,“ segir Þorbjörg Sigríður. Var þetta óumflýjanleg niðurstaða? „Ég held þetta sé rétt niðurstaða og rétt ákvörðun hjá henni. Ég held þetta sé farsæl niðurstaða í heildarsamhengi hlutanna,“ segir Þorbjörg Sigríður og bendir á að Sigríður Björk komi nú til starfa í ráðuneytinu. „Sem sérfræðingur í aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi. Þar á hún mjög góða sögu og mikla reynslu.“ Dómsmálaráðherra segir Sigríði Björk Guðjónsdóttur axla ábyrgð með því að láta af embætti ríkislögreglustjóra. Það sé rétt niðurstaða. Sigríður Björk lagði sjálf til að hún kæmi til starfa í ráðuneytinu. Segir Sigríði Björk hafa axlað ábyrgð Aðspurð hvort brotthvarf Sigríðar Bjarkar sé fyrst og fremst vegna viðskipta við Intru-ráðgjöf, eða hvort hallarekstur embættisins spili þar inn í segir Þorbjörg að Sigríður Björk þurfi sjálf að svara því. En staðan sem kom upp í kjölfar umfjöllunar um viðskiptin var til umræðu þeirra á milli. „Hvað mig varðar þá hefur hún núna axlað ábyrgð, sagt af sér embætti sem æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu öllu. Það er býsna stór ákvörðun.“ Telurðu að þetta mál hafi skaðað traust almennings til embættis ríkislögreglustjóra? „Svona umræða er ekki góð. Hún ógnar hagsmunum lögreglunnar í landinu og lögreglunnar í heild sinni. Ég sem ráðherra var upptekin af þeim punkti, að verja traust til lögreglunnar.“ En var það sjálfgefið að Sigríður Björk kæmi til starfa í ráðuneytinu? „Þetta var niðurstaða af okkar samtali og reyndar hugmynd sem kom fram hjá henni sjálfri. Hún lagði þetta til. Hún er skipuð og átti fjögur ár eftir af skipunartímanum,“ segir Þorbjörg Sigríður og segir það því ekki vera þannig að Sigríður Björk sitji heima á starfslokasamningi. Það sé fagnaðarefni að hún haldi áfram störfum sínum fyrir ríkið,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.