Vinnumálastofnun grípur til aðgerða vegna aukins atvinnuleysis á Suðurnesjum

Yfir 6,5 prósenta atvinnuleysi mælist á Suðurnesjum. Vinnumálastofnun hefur gripið til aðgerða og opnað atvinnutorg til að styðja þá sem hafa misst vinnuna. Ýktari niðursveifla en hefur verið Atvinnuleysi á Suðurnesjum hefur aukist mikið milli mánaða, að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar. Árstíðarbundin sveifla er alltaf yfir vetrarmánuðina, frá nóvember og út febrúar. „Sérstaklega kemur hún oft niður á Suðurnesjum þegar ferðaþjónustan dregst saman en þetta er ýktari niðursveifla heldur en við erum vön að sjá á milli mánaða.“ Gjaldþrot flugfélagsins Play í lok september spilar inn í. „Það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta. Það eru ýmis afleidd störf sem hafa fallið niður. Það er ekki nokkur spurning. Það er náttúrulega bara mikill samdráttur í ferðaþjónustunni í bili. Bæði er það árstíðarbundinn samdráttur en svo líka hægt að rekja töluverðan samdrátt í kjölfar falls Plays.“ Aðgerðir næstu þrjá til fjóra mánuðina Í tilkynningu á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að þessi þróun gefi tilefni til markvissra aðgerða af hálfu Vinnumálastofnunar. Unnur segir að búið sé að setja á fót atvinnutorg þar sem fólk getur komið og fengið aðstoð við að sækja um atvinnuleysistryggingar og uppfærða ferilskrá sína. „Við erum í auknu samstarfi við fræðsluaðila með virkni fyrir fólk sem er að lenda í atvinnuleysi, við reynum að auka aðgengi að ráðgjöfum okkar og vinnumiðlun og vera til staðar fyrir þetta fólk.“ Atvinnutorgið er opið þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga yfir mesta álagstímann. „Það er hægt að koma þar og kíkja í tölvur og fá aðstoð við að sækja um störf og fá leiðbeiningar um hvernig er best að standa að því.“ Unnur býst við því að þessar aðgerðir standi yfir næstu þrjá til fjóra mánuðina. „Þá er ég bara að horfa til þessarar árstíðarbundnu niðursveiflu sem er í ferðaþjónustunni yfir háveturinn en við vonum að landið fari að rísa eins og áður í mars og apríl og þá fari að glæðast atvinnuástandið á Suðurnesjunum aftur.“