Íslandsbanki hefur ákveðið að veita á ný verðtryggð húsnæðislán á föstum vöxtum. Bankinn gerði tímabundið hlé á lánveitingum eftir dóm Hæstaréttar í síðasta mánuði. Nýju lánin eru á föstum vöxtum til fimm ára í senn og vaxtakjörin eru byggð á vaxtaviðmiði Seðlabankans. Lánin standa öllum fasteignakaupendum til boða, bæði fyrstu kaupendum og öðrum. Neytendur taka höggið Neytendasamtökin skoða nú hvaða áhrif vaxtaviðmið Seðlabankans og Íslandsbanka hafa á lántakendur. Samkvæmt lögum verða viðmiðin að vera skýr, aðgengileg og hlutlæg og þau verður að vera unnt að sannreyna. Breki Karlsson er formaður Neytendasamtakanna. „Það gæti verið að skilmálinn sé löglegur með tilliti til gagnsæis en þá verður líka að gæta jafnvægis milli bankans og lántakenda.“ Breki segir að samkvæmt skilmálanum taki neytendur á sig alla hækkun vaxta en njóti ekki lækkunar nema að takmörkuðu leyti. Bönkunum í lófa lagið að minnka vaxtamun „Það er s.s. vaxtagólf og við erum að kanna hvort að það standist hreinlega lög.“ Hvergi annars staðar í Evrópu eru bankar með meiri vaxtamun en á Íslandi. Breki segir að bönkunum væri í lófa lagið að minnka hann. Bankarnir hér telji sig þurfa þrefalt hærri vaxtamun á fasteignalánum en í nágrannaríkjunum. „Og það er náttúrulega eitthvað sem við getum ekki unað við. Stóra spurningin er, og það er eitthvað sem stjórnvöld verða að svara, og hún er sú hversu háa húsnæðisvexti telja stjórnvöld æskilegt og þolanlegt að íslenskir lántakendur greiði. Háir vextir á Íslandi stappa nærri sturlun og við þá verður ekki unað.“