Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og sambýliskona hans, Anna Bergljót Gunnarsdóttir efnafræðingur, eiga von á barni næsta vor. Ráðherrann staðfesti þetta í samtali við DV í dag en fyrir eiga þau eina dóttur sem er fædd árið 2023. Mikið barnalán virðist vera í ríkisstjórninni en Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra á einnig von á barni með barnsmóður sinni, en fyrir eiga þau þriggja ára barn saman. Ekki eru mörg nýleg dæmi þess að ráðherrar í ríkisstjórn eignist börn, en Katrín Jakobsdóttir er fyrsti ráðherrann til að ganga með barn í ráðherratíð sinni, þegar hún var menntamálaráðherra árið 2010. Skömmu síðar gekk nafna hennar og þáverandi iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, með tvíbura. Bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir urðu aftur á móti báðar ráðherrar skömmu eftir barnsburð. Þorgerður árið 2003, sama ár og hún eignaðist dóttur sína, og Þórdís árið 2017, innan við ári eftir að hún eignaðist dóttur sína.