Náðu saman um endi lengstu vinnustöðvunar frá upphafi

Starfsstöðvun alríkisins í Bandaríkjunum gæti senn verið á enda eftir að öldungadeild Bandaríkjanna greiddi atkvæði með samningi milli Repúblikana og minnihluta Demókrata. Þarmeð hefur fyrsta skrefið verið stigið í átt að því að fjármagna alríkið, sem fékk engar fjárveitingar til reksturs síns eftir 1. október. Það er lengsta vinnustöðvun alríkisins frá upphafi. Slík vinnustöðvun, sem kölluð er government shutdown þar vestra, verður þegar ekki tekst að semja um fjárlög. Opinbera kerfi einstakra ríkja er áfram starfandi, en ýmiss opinber starfsemi þvert á ríkin 50 hættir nær samstundis þar til samþykki næst. Eins og segir í frétt BBC um málið eiga þingmenn fulltrúadeildarinnar enn eftir að afgreiða samninginn áður en alríkisstarfsmenn geta mætt aftur til vinnu, 40 dögum eftir að þeir urðu að gera hlé á störfum sínum. Um 1,4 milljón starfsmenn alríkisins hafa ýmist verið í ólaunuðu leyfi síðan eða mætt til vinnu án þess að fá fyrir það greitt. Talsverð röskun hefur orðið á ýmissi starfsemi í Bandaríkjunum vegna alls þessa. Til dæmis í flugrekstri þar sem fjöldi fólks varð strand vegna vinnustöðvunar á flugvöllum í Bandaríkjunum. Útdeiling matvælaaðstoðar til fátækra Bandaríkjamanna stöðvaðist og er talið að það hafi áhrif á 41 milljón landsmenn. John Thune, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, og Jeanne Shaheen og Maggie Hassam, þingmenn Demókrata, komust að samkomulaginu í morgun. Þau nutu stuðnings Angus King, óháðs þingmanns sem tekur jafnan afstöðu með Demókrötum. Repúblikanar eru í meirihluta í öldungadeildinni, 53 þingmenn gegn 47, en þurftu þrátt fyrir það að ná 60 atkvæða meirihluta í atkvæðagreiðslu. Átta þingmenn úr röðum Demókrata féllust á að greiða atkvæði með samkomulaginu. Aðeins Rand Paul greiddi atkvæði gegn því úr röðum Repúblikana, með þeim rökstuðningi að það myndi auka skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna. Demókratar eru sagðir hafa fengið í gegn að áframhald yrði á niðurgreiðslum í heilbrigðiskerfinu, sem áttu að renna sitt skeið í ár. Þetta er eitthvað sem Demókratar hafa viljað nýta í samningsviðræðum sem þessum. Vinnustöðvunin er sú lengst frá upphafi. Fyrra met er frá fyrra kjörtímabili Donalds Trump forseta og varði vinnustöðvunin þá í 34 daga. Yfirleitt varir hún aðeins í örfáa daga. Þá varð frægt þegar Donald Trump tók á móti gestum í Hvíta húsinu og bauð upp á McDonalds, þar sem kokkar Hvíta hússins voru í ólaunuðu leyfi.