Eygló Fanndal frá í nokkra mánuði: „Ég er svolítið óþolinmóð“

Eygló Fanndal Sturludóttir, Evrópumeistari í ólympískum lyftingum, er með útbungun neðst í bakinu. Meiðslin komu í veg fyrir að hún gæti keppt á HM í október og nú er ljóst að þau eru alvarlegri en hún hélt í fyrstu: „Þetta verða einhverjir mánuðir þar sem ég má ekki lyfta neitt en það verður bara að hafa það.“ Lyftingakonan Eygló Fanndal Sturludóttir er með útbungun í mjóhrygg. Meiðslin séu alvarlegri en hún hélt í fyrstu en hún sé þó hvergi nærri hætt lyftingum. Læknarnir gáfu henni gróft plan á bataferlinu þó auðvitað sé ekki vitað nákvæmlega hvenær hún getur snúið aftur til keppni: „Ég held að þau hafi gefið mér lengsta planið til að halda mér eins rólegri og þau geta því þau vita að ég er svolítið óþolinmóð og vil bara keyra á þetta um leið og ég má. En við erum kannski að horfa á einhverja fimm mánuði.“ Eygló fór til London því hún fékk ekki skýr svör hjá íslenskum læknum: „Það gekk illa að greina þetta hér. Ég var búin að vera mjög lengi þar sem var bara lítill framgangur og við vorum ekki alveg að komast nær því hvað væri að gerast. Ég var mjög heppin að komast að hjá sérfræðingi í London sem hjálpaði Annie Mist á sínum tíma með hennar bakmeiðsli. Hann fékk frábær meðmæli og ég komst að hjá honum þannig að ég dreif mig bara um leið og ég gat; fór til hans og fékk svör.“ Óvissa með EM en stefnir á HM og Ólympíuleikana Næsta stórmót er EM næsta apríl, þar sem hún á titil að verja, og enn óljóst með þátttöku Eyglóar þar: „Það er kannski ekki sniðugt að setja allan fókusinn á það núna og verða þá fyrir vonbrigðum ef það gengur ekki. Frekar bara að sjá hvernig gengur og ef það gengur þá verður það ótrúlega gaman en frekar að hugsa um HM næsta haust, það er kannski svona aðalmálið núna.“ Þrátt fyrir bakslagið setur Eygló sem fyrr stefnuna á Ólympíuleikana í Los Angeles 2028. „HM er fyrsta mótið í úrtökuferlinu fyrir Ólympíuleikana þannig að það er það sem skiptir mestu máli. Það hefði verið ótrúlega gaman að fara á EM og verja titilinn en til lengri tíma litið er það ekki markmiðið sem við erum að stefna á núna, það eru Ólympíuleikarnir. Mig langar að fara þangað og ég ætla bara að gera allt sem ég get til að komast þangað.“