Arion banki býður viðskiptavinum sínum upp á tvenns konar fasteignalán eftir að hafa endurskoðað skilmála lánanna. Það var gert vegna þeirrar óvissu sem skapaðist á fasteignamarkaði í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða gegn Íslandsbanka. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Eftir breytinguna verður í boði að taka óverðtryggð íbúðalán með fasta vexti til þriggja ára. Lánstíminn verður allt að 40 ár. Í tilkynningunni segir að á þriðja ári fastvaxtatímabilsins og út lánstímann verði hægt að óska eftir endurfjármögnun án uppgreiðslugjalds. Viðskiptavinir geta þá valið á milli þeirra lánakosta sem í boði verða á þeim tíma. Verði lánið ekki endurfjármagnað fyrir lok tímabilsins taka við breytilegir vextir bankans sem verða í boði á þeim tíma. Bankinn býður einnig upp á verðtryggð íbúðalán með fasta vexti til þriggja eða fimm ára. Lánstími þeirra verður allt að 30 ár. Eins og með óverðtryggðu lánin verður hægt að óska eftir endurfjármögnun á lokaári fastvaxtatímabilsins. Verði lánin ekki endurfjármögnuð fyrir lok tímabilsins taka við hærri fastir vextir út lánstímann. Bankinn bíður niðurstöðu Hæstaréttar í máli sem varðar skilmála verðtryggðra lána. Niðurstaðan liggur að öllum líkindum fyrir um miðjan desember.