Stjórnarandstaðan á þingi er ósátt við að frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi verið afgreitt úr velferðarnefnd í morgun. Ekki er deilt um efni frumvarpsins en stjórnarandstaðan hefur áhyggjur af kostnaði sem kann að falla á sveitarfélög. Önnur umræða um samninginn fór fram í síðustu viku og gekk málið til nefndar. Í henni kallaði stjórnarandstaðan eftir því að gert yrði mat á kostnaði sem kynni að falla á sveitarfélögin. Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, gagnrýndi að frumvarpið hafi verið afgreitt úr nefndinni án þess að komið yrði til móts við þær óskir. Benti hún á að í morgun hafi Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sent áskorun til Alþingis um að ríkið vinni kostnaðarmat um áhrif lagasetningarinnar. Margir tóku til máls og sagði Sigurður Örn Hilmarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, frá því að hann hafi fengið niðurstöðu fundar velferðarnefndar senda í tölvupósti 20 mínútum áður en fundurinn hófst. „Það var búið að ákveða hver niðurstaðan var löngu áður en ég mætti og mér mislíkar þetta.“ Rammpólitískur fyrirsláttur Frumvarpið er eitt af stóru málum Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og kom hún meirihluta nefndarinnar til varnar. Hún sagði að málið hafi fengið ítarlega meðferð á síðasta þingi og búið væri að bregðast við fjölmörgum beiðnum stjórnarandstöðunnar „um hinar og þessar upplýsingar“. Allt tal um að málið sé ekki tilbúið til afgreiðslu sé rammpólitískur fyrirsláttur. „Kolbrún Baldursdóttir hefur staðið sig frábærlega við vinnslu þessa máls og ég bið þá sem gagnrýna störf hennar að líta frekar í eigin barm. Það er orðið tímabært að gefa fötluðu fólki kost á því að vera hluti af þessu samfélagi í stað þess að þurfa ítrekað að verja hér tilverurétt þeirra.“