Aðeins 14% eru ánægð með störf Guðrúnar Hafsteinsdóttur formanns Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Forsætisráðherra er sá formaður stjórnmálaflokks á þingi sem fólki finnst hafa staðið sig best samkvæmt könnuninni, 60% eru ánægð með störf Kristrúnar Frostadóttur. Stjórnmálafræðingur segir stöðu Guðrúnar erfiða. Aðeins 34 prósent þeirra sem myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn segjast ánægð með störf Guðrúnar Hafsteinsdóttur í könnun Maskínu. Ríflegur meirihluti þeirra sem myndu kjósa alla hina flokkana segist ánægður með formenn þeirra. Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, segir augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki að ná þeirri viðspyrnu eftir formannsskipti sem flokksmönnum þyki ásættanleg. „Í rauninni minnkar ánægjan með hennar störf frá því í vor töluvert mikið þannig að fyrir þennan stóra, mikla valdaflokk í íslenskri stjórnmálasögu er þetta auðvitað feikilega erfið staða fyrir formann hans að vera í.“ Eiríkur segir að það að formaður sem svo nýlega hafi tekið við embætti sé ekki vinsælli sé óvanalegt. Það sé oftar sem svona mælingar komi eftir að eitthvað hafi gengið á í stjórnmálunum. „Það er yfirleitt ekki fyrr en að formenn hafi þá verið lengi og lent í verulega miklum erfiðleikum í stjórnmálunum. Áföll eða hneykslismál eða eitthvað riðið yfir sem eitthvað slíkt hefur gerst í íslenskri stjórnmálasögu. Alla jafna má ætla að góður meirihluti fylgismanna stjórnmálaflokks sé ánægður með tiltölulega nýjan formann í flokknum en það bara tekst Guðrúnu Hafsteinsdóttur ekki.“ Eiríkur bendir á að ánægja með Bjarna Benediktsson, forvera Guðrúnar, hafi einu sinni mælst minni, 13%, það hafi verið í mælingu á ánægju með störf ráðherra undir lok hans ferils. Þetta sýni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki náð þeirri viðspyrnu sem vonir hafi staðið til eftir formannsskipti. Bundnar hafi verið vonir með að ánægja með hennar störf myndi aukast miðað við mælingu síðan í vor. „Það hefur ekki tekist þannig að þessi umskipti í Sjálfstæðisflokknum hafa ekki heppnast til þess að ná flokknum aftur á flug og gerir hennar stöðu erfiðari en ella.“ Fréttastofa leitaði viðbragða hjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur við vinnslu fréttarinnar, hún varð ekki við viðtalsbeiðni. Eftirtektarvert að ánægja með ríkisstjórnina hafi ekki dalað Af leiðtogum stjórnarandstöðuflokkanna er mest ánægja með störf Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem 21% þykir hafa staðið sig vel. 12% prósent segja Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, hafa staðið sig vel. Ánægjan er meiri með leiðtoga ríkisstjórnarflokkanna, 60% eru ánægð með störf Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra, 46% með störf Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og 24% lýsa ánægju með störf Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. Eiríkur segir eftirtektarvert hversu mikið meiri ánægja er með störf leiðtoga stjórnarflokkanna en stjórnarandstöðuflokkanna. Skýringin á því geti verið sú að enn sé stutt síðan ríkisstjórnin tók við völdum. „En eigi að síður, svona í ljósi þeirra sögu hvað vinsældir ríkisstjórna falla nú almennt fljótt í nútímanum í vestrænum samfélögum, þá er þessi staða verulega eftirtektarverð,“ segir Eiríkur.